Sveinn Andri þarf ekki að víkja sem skiptastjóri

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri WOW air.
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri WOW air. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús WOW air, þarf ekki að víkja sem skiptastjóri búsins. Þetta var niðurstaða Símonar Sigvaldasonar héraðsdómara, en Arion banki hafði farið fram á að Sveini yrði gert að víkja vegna vanhæfis. Taldi bankinn að Sveinn hefði í störfum sínum í öðru máli sem tengdist Valitor, dótturfélagi Arion banka, farið langt út fyr­ir það sem eðli­legt mætti telja í störf­um fyr­ir skjól­stæðing sinn.

Fulltrúi Arion banka sem var viðstaddur uppkvaðninguna staðfesti við mbl.is að engin ákvörðun hefði verið tekin um hvort niðurstöðunni yrði skotið til Landsréttar, en að lögmenn bankans myndu nú fara yfir niðurstöðuna.

Við málflutning málsins kom fram í máli lögmanns Arion banka að Sveinn Andri hefði beitt sér með óeðli­leg­um hætti í mála­ferl­um Suns­hine press og Datacell gegn Valitor, en þar er farið fram á 16 millj­arða í bæt­ur eft­ir að Valitor lokaði greiðslugátt sem var til stuðnings Wiki­leaks. Vildi lögmaðurinn meina að Sveinn Andri hefði komið fram í eigin nafni og beitt sér gegn Valitor og Arion banka en ekki fyrir hönd skjólstæðinga sinna, meðal annars með því að hafa reynt að koma í veg fyrir skráningu Arion banka á markað.

Sveinn Andri hafnaði slíkum ásökunum í málflutningnum og sagðist alltaf hafa komið fram fyrir hönd skjólstæðinga sinna og varð nokkur hiti í honum þegar hann sagði að krafa Arion banka væri aðeins sett fram vegna óvildar lögmannsins, Ólafs Eiríkssonar, gegn sér.

Sem fyrr segir taldi dómari málsins ekki ástæðu til að víkja Sveini Andra sem skiptastjóra þrátt fyrir kröfu Arion banka.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir