Vill leggja til fjármuni í nýtt flugfélag

Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta Hotels.
Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta Hotels. mbl.is/Sigurður Bogi

Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta Hotel á Hellu, kveðst áhugasamur um að leggja fé inn í nýtt lággjaldaflugfélag til að fylla í skarð WOW air sem varð gjaldþrota í lok mars sl. Hann segir mikinn áhuga á því að koma að nýju flugfélagi meðal aðila í ferðaþjónustunni og hjá fyrrverandi starfsmönnum WOW air.

„Það er lykilatriði að koma öðru lággjaldaflugfélagi á kortið með einum eða öðrum hætti, með reynslumiklu fólki. Nú er mikið af reynslumiklu fólki á lausu og ef við gerum þetta ekki núna, þá er það erfitt seinna. Hjá WOW air var flottur hópur af fólki,“ segir hann.

Nýtt félag verði hreinræktað lággjaldaflugfélag

Fram hefur komið að Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, safni nú fjármunum til að stofna nýtt flugfélag. Hreiðar segir nálgun Skúla góða. „Þau hugsa þetta þannig að það verði dreifður og fjölmennur hópur kringum félagið. Ég hef hugmyndir um að leggja þessu lið ef þetta verður rétt lagt upp. Ef þetta er ekki gert núna, þá verður það erfitt síðar,“ segir hann. „Ef það verður ekki gott starfsfólk, þá verður fyrirtækið ekki rekstrarhæft. Þessi hópur sem er á lausu núna verður fljótur að þynnast út,“ bætir Hreiðar við.

„Ef við horfum upp á flugfélag sem hefur t.d. 60% hlutdeild í öllu flugi til landsins, þá verður það aldrei gott fyrirkomulag. Við viljum hafa eitt gott félag eins og Icelandair og síðan annað alveg hreinræktað lággjaldaflugfélag. Það er mikilvægt að reyna ekki að rugla reytum hvað þetta varðar. Margir hafa reynt og það hefur yfirleitt ekki gengið vel,“ segir hann.

Ekki í tengslum við vefsíðu um stofnun almenningshlutafélags

Aðspurður segir Hreiðar að áform hans um stuðning við stofnun nýs lággjaldaflugfélags eigi ekkert skylt við vefsíðuna hluthafi.com sem skaut upp kollinum um helgina og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Ekki hefur fengist uppgefið hver stendur að síðunni, en þar er fólk hvatt til að gefa hlutafjárloforð til að stofna megi almenningshlutafélag sem síðan myndi fjárfesta í nýju WOW air eða öðru nýju lággjaldaflugfélagi.

Hreiðar ásamt Hermanni Hreiðarssyni, syni sínum og fyrrverandi knattspyrnumanni, við …
Hreiðar ásamt Hermanni Hreiðarssyni, syni sínum og fyrrverandi knattspyrnumanni, við hótelið á Hellu, en það er í þeirra eigu. mbl.is/Eggert

Hreiðar kveðst þó vita af áhuga fyrrverandi starfsfólks WOW air til þess að koma að stofnun nýs flugfélags. „Þetta fólk bíður eftir því að unnið verði að stofnun nýs „óskabarns þjóðarinnar“ ef svo má segja,“ segir hann. Þá nefnir hann að innan ferðaþjónustunnar sé mikill áhugi. „Ég veit ekki hver væri ekki á sama máli hvað þetta varðar,“ segir Hreiðar.

Fall WOW haft áhrif á bókun bílaleigubíla

Hreiðar nefnir að áhrif af falli WOW air hafi komið skýrt fram í bókunum í ferðaþjónustunni, einkum í bókunum bílaleigubíla.  

„Það er ekki mikið af afbókunum hjá okkur hjá Stracta, en við sjáum á bílaleigubókunum að þær eru miklu minni en í fyrra. Það er það fólk sem hefur verið að ferðast með WOW air dettur nú út og það birtist m.a. svona. Ef miðað er við tólf daga fram í tímann, þá vantar helminginn af bókunum samanborið við stöðuna í fyrra,“ segir Hreiðar. „Þetta hefur gríðarleg fjárhagsleg áhrif. Menn hafa ekki enn reiknað út margfeldisáhrifin á þjóðarhag ef ekkert annað kemur í staðinn,“ segir hann.

Ekki hefur náðst í Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW air, um helgina í tengslum við téð áform um stofnun nýs flugfélags.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK