Verður allt of mikið byggt af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu?

mbl.is/Eggert

Hagfræðideild Landsbankans veltir vöngum yfir því hvort byggt verði allt of mikið af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Hún bendir á, að Hagstofan hafi enn ekki birt upplýsingar um byggingu íbúðarhúsnæðis á síðasta ári. Upplýsingastreymi um byggingarstarfsemi hafi ekki batnað mikið í núverandi uppsveiflu og enn renni menn jafn blint í sjóinn með byggingarmagn, staðsetningu og tegundir húsnæðis í byggingu.

Fram kemur í Hagsjánni, að samkvæmt nýjustu tölum frá árinu 2017 hafi verið byrjað að byggja um 2.200 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2017 og lokið við að byggja um 1.370 íbúðir.

Bent er á, að Samtök iðnaðarins (SI) hafi um árabil talið íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í helstu byggðakjörnum landsins tvisvar á ári. Niðurstöður SI hafi á síðustu árum verið einu áreiðanlegu heimildirnar um byggingu íbúðarhúsnæðis en mikill skortur hafi verið á haldbærum opinberum upplýsingum.

„Nýjustu upplýsingar SI um byggingarmagn eru frá því í mars 2019. Samkvæmt þeim eru byggingar íbúðarhúsnæðis enn að aukast, en heldur hægir þó á vextinum. Þannig jókst fjöldi íbúða í byggingu sem eru fokheldar og lengra komnar um 12% frá síðustu mælingu í október 2018, en íbúðum sem ekki voru orðnar fokheldar fækkaði um 4%. Þetta bendir sterklega til þess að frekar sé verið að draga út starfsemi en hitt. Þessi þróun sést enn betur ef einungis er litið til byggingar á fjölbýli, en þar fjölgaði íbúðum sem voru fokheldar og lengra komnar um 24%, en íbúðum að fokheldu fækkaði um 12%. Það lítur því út fyrir að verkefni í fjölbýli fari síður af stað en verið hefur,“ segir í Hagsjánni.

Enn fremur segir, að sé litið til þess að nú sé verið að byggja þúsundir íbúða á höfuðborgarsvæðinu, að um 7.700 muni verða fullkláraðar í ár og á næstu tveimur árum og að þessar íbúðir séu væntanlega of stórar og dýrar til þess að leysa þann vanda sem fyrir er, þá sé væntanlega vandi á höndum.

„Allar þær tillögur sem hafa verið lagðar fram til þess að leysa meintan vanda snúa í þá átt að það þurfi að stórauka byggingu á litlu og hentugu húsnæði. Það er því ákveðin hætta á því að framboð veigamikils hluta íbúða sem nú eru á teikniborðinu og í byggingu geti orðið mun meira en eftirspurn á næstu árum.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK