Getur haft mikil áhrif á Airbnb-markaðinn

Um 2.000 Airbnb-íbúðir voru í boði í febrúar síðastliðnum.
Um 2.000 Airbnb-íbúðir voru í boði í febrúar síðastliðnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpsþætti ritstjórnar Morgunblaðsins um viðskipti- og efnahagsmál, er m.a. rætt við Magnús Árna Skúlason, hagfræðing hjá Reykjavík Economics, um fasteignamarkaðinn. Segir Magnús Árni að tilkoma þeirra 1.500 hótelherbergja sem nú eru í byggingu muni hugsanlega hafa töluverð áhrif á Airbnb-markaðinn.

Spurður um stöðuna á fasteignamarkaðnum í dag segir Magnús Árni hana vera þríþætta.

Dálítil bölvun

„Það hefur annars vegar verið margt ungt fólk að koma inn á markaðinn á undanförnum 10 árum. Svo eru útlendingar sem hafa flutt hingað vegna starfa sinna til þess að aðstoða okkar í ferðaþjónustu, byggingariðnaði, og svo framvegis. Og svo í þriðja lagi Airbnb-markaðurinn sem hefur verið að þjónusta ferðaþjónustuna, sem má í raun og veru segja að hafi verið blessun eftir efnahagshrunið, því það var margt fólk, sérstaklega ungt fólk, sem gat leigt út íbúðirnar sínar og fengið viðbótartekjur og haldið íbúðunum sínum,“ segir Magnús Árni.

„Nú kannski má segja að þetta sé orðin dálítil bölvun. En það eru hins vegar kannski blikur á lofti vegna þess að við erum að sjá staðgönguáhrif og það hafa í raun engir aðilar skoðað það, hvorki hið opinbera né aðrir, að það er mikið af hótelherbergjum í byggingu núna,“ segir Magnús Árni og heldur áfram.

Airbnb-markaðurinn var ákveðin blessun fyrir ferðaþjónustugreinina skömmu eftir efnahagshrun.
Airbnb-markaðurinn var ákveðin blessun fyrir ferðaþjónustugreinina skömmu eftir efnahagshrun. mbl.is/Eggert

„Morgunblaðið hefur m.a. komið því á framfæri að hér væru líklega um 1.500 hótelherbergi í byggingu, eins og fjallað var um í síðasta Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, sem koma inn á markaðinn á næstu tveimur til þremur árum. Þetta er gríðarleg fjölgun. Þetta er um fjórðungsfjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu og það mun hafa áhrif á Airbnb-markaðinn. Ég held að í febrúar síðastliðnum hafi verið um 2.000 Airbnb-íbúðir í boði. Ef hluti af þeim fer bara inn á markaðinn, segjum bara 500, þá er það kannski helmingurinn af íbúðaþörf Reykjavíkurborgar á því ári. Þá eru allt í einu komnar íbúðir sem eru komnar í almenna útleigu eða þá eru til kaups,“ segir Magnús Árni.

Stóri bróðir lengi að taka við sér

Spurður um áhrif þessarar miklu fjölgunar hótelherbergja, og hvort hún geti dregið úr hvata fólks til þess að standa í útleigustarfsemi, segir Magnús Árni að nú þegar hafi þrengt að með harðari regluvæðingu.

Magnús Árni Skúlason hagfræðingur.
Magnús Árni Skúlason hagfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er búið að þrengja að með regluvæðingu. Það þarf að skrá þessar eignir hjá sýslumanni og ef tekjurnar eru umfram ákveðið mark er þetta orðið atvinnurekstur. Þar með er þetta orðið mun dýrari rekstur og þarf að bera sig. Menn horfa kannski til þess að ná miklum fjármagnsávinningi með hækkun húsnæðisverðs og það borgi sig kannski að fara að selja. Um þessi staðgönguáhrif hefur ekkert verið fjallað um í skýrslu frá hinu opinbera, varðandi t.d. breytingar á húsnæðismarkaði og öðru. Oftar en ekki er stóri bróðir lengi að taka við sér. Hefði kannski átt að taka við sér 2012-13 og er kannski núna að koma með aðgerðir sem eru skaðlegar markaðnum. Rétt framboð á íbúðum fyrir fyrstu kaupendur er ekki til. Íbúðir undir 40-45 milljónum eru ekki til á meðan mikill fjöldi íbúða, menn þurfa ekki annað en að ganga um í miðborg Reykjavíkur, til þess að sjá mikið af dýrum íbúðum sem eru kannski ekki til þess fallnar að fyrstu kaupendur geti keypt þær.“

Hlusta má á annan þátt Viðskipta­púls­ins hér að ofan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá Itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir