Hefur lokið við 120 milljóna króna fjármögnun og er stórhuga

Jón Ívar Einarsson.
Jón Ívar Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið Freyja HealthCare, sem stofnað var af Jóni Ívari Einarssyni, prófessor við Harvard Medical School, hefur tryggt sér 120 milljóna króna fjármögnun frá íslenskum fjárfestum en það var Spakur Finance sem aðstoðaði félagið við fjármögnunina. Fyrirtækið var stofnað árið 2017 og er metið á 1,1 milljarð króna.

Jón Ívar starfar sem kvensjúkdómalæknir með undirsérhæfingu í kviðsjáraðgerðum og hefur að undanförnu hannað og þróað tæki sem staðla á aðgerðir í tengslum við legnám. Að sögn Jóns Ívars er fyrirtækið á lokametrunum við að skrifa undir samning við stórt lækningafyrirtæki um sölu á þremur tækjum sem tengjast stöðlun á legnámsaðgerðum. Mun nýafstaðin fjármögnun ásamt sölunni á tækjunum hjálpa fyrirtækinu að vaxa.

Segir Jón Ívar ánægjulegt að hafa fengið íslenska fjárfesta í fyrirtækið og vonast hann til þess að byggja upp hluta af starfsemi þess hér á landi þegar fram í sækir.

„Þessi fjármögnun sem við erum að klára núna gerir okkur kleift að halda áfram með þróun á fleiri tækjum sem við höfum verið að undirbúa sem eru jafnvel enn meira spennandi. Eitt af þeim tækjum myndi notast við skimum fyrir eggjastokkakrabbameini og legslímuflakki, sem myndi hjálpa mjög mörgum konum sem greinast með þessa kvilla,“ segir Jón Ívar og bætir því við að tækin muni einnig auka öryggi sjúklinga. Eru tækin væntanleg á markað eftir tvö til þrjú ár.

„Nú viljum við klára þennan samning við þetta stórfyrirtæki sem veltir milljörðum bandaríkjadala á ári. Við viljum nýta það fjármagn til þess að Freyja Healthcare geti staðið eitt og sér og verið stórt lækningafyrirtæki í framtíðinni.“ Segist Jón Ívar sjá það fyrir sér að vera með tæki á markaði sem verði að grunnbúnaði fyrir ákveðnar aðgerðir í nánustu framtíð.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK