Stefán tekur tímabundið við stjórn Arion

Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka og starfandi bankastjóri.
Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka og starfandi bankastjóri. Ljósmynd/Arion banki

Stefán Pétursson hefur tekið tímabundið við starfi bankastjóra Arion banka eftir að Höskuldur H. Ólafsson lét af störfum í lok þarsíðustu viku. Stefán er framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans og mun hann gegna starfi bankastjóra frá 1. maí og þar til stjórn hefur ráðið bankastjóra til frambúðar.

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að stjórn Arion banka hafi hafið undirbúning að ráðningu nýs bankastjóra.

Á vef Arion banka kemur fram að Stefán hafi tekið við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Arion banka í ágúst 2010.

Hann hóf störf hjá Landsvirkjun 1991, fyrst sem yfirmaður lánamála en sem deildarstjóri fjármáladeildar frá 1995. Frá árinu 2002 var Stefán framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar auk þess sem hann sat í samninganefnd fyrirtækisins við orkufrekan iðnað.

Stefán var í leyfi frá Landsvirkjun á árinu 2008 er hann stýrði fjárfestingarfélaginu Hydro-Kraft Invest hf. Á árunum 1986 til 1989 starfaði Stefán sem skrifstofustjóri hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins. Stefán hefur gegnt fjölda trúnaðar- og stjórnunarstarfa á undanförnum árum. Hann situr nú í stjórn Landfesta hf. og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fyrir hönd SFF. Stefán situr í stjórn Valitor hf.

Stefán útskrifaðist með MBA-gráðu frá Babson College í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1991 og cand. oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1986.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK