Besta afkoma í 130 ára sögu KS

Þórólfur Gíslason hefur verið kaupfélagsstjóri í 31 ár.
Þórólfur Gíslason hefur verið kaupfélagsstjóri í 31 ár. mbl.is/RAX

Afkoma Kaupfélags Skagfirðinga á árinu 2018 er sögð verða sú besta í 130 ára sögu félagsins, en hún nam fimm milljörðum króna. Ársfundur félagsins fór fram í dag og var reksturinn á síðasta ári sagður hafa verið með svipuðu móti og undanfarin ár.

Samkvæmt ársreikningi félagsins nam hagnaður af rekstri samstæðunnar á árinu 2018, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, 5.013 milljónum króna samanborið við 2.327 milljónir króna árið 2017.

Það sem helst skýrir þennan mun er söluhagnaður þar sem FISK Seafood, eitt 14 dótturfélaga KS, seldi 50% eignarhlut sinn í Olís og eignarhlut sinn í félaginu Solo Seafood á árinu. Hagar hf. keyptu hlut KS í Olís, en helmingur var greiddur með reiðufé og helmingur með hlutabréfum í Högum. KS ber að selja þau bréf innan 30 mánaða frá því viðskiptin tóku gildi og eru þau mál nú til skoðunar. 

Fjárfestingar fyrir rúma 11 milljarða

Heildarfjárfestingar samstæðunnar á árinu 2018 námu 11,3 milljörðum króna. Stærstu einstöku fjárfestingarnar voru kaup á tæplega þriðjungi hlutafjár í Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum. Kaupverðið var 9,4 milljarðar króna.

Eigið fé, ásamt hlutdeild minnihluta, í lok árs 2018 nam rúmum 35 milljörðum króna. Eigið fé nam rúmum 30 milljörðum í lok árs 2017. Þá námu eignir félagsins 62,3 milljörðum króna samanborið við 49,4 milljarða árið 2017.

Skuldir félagsins í lok árs voru 27.3 milljarðar króna en voru 19.3 milljarðar í lok árs 2017.

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, ávarpar ársfund Kaupfélags Skagfirðinga í dag.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, ávarpar ársfund Kaupfélags Skagfirðinga í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Ekki er á þessari stundu gott að meta áhrif nýgerðra kjarasamninga á samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Hins vegar er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld verða að taka höndum saman og einfalda þá umgjörð sem atvinnulífinu er búin af hálfu stjórnvalda og draga þannig úr kostnaði, ef hægt á að vera að verja samkeppnishæfni þjóðarbúsins,“ segir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, í ársskýrslu félagsins.

Bjarni Maronsson, stjórnarformaður KS, endurnýjaði umboð sitt í stjórn á ársfundinum ásamt Sigríði Gunnarsdóttur.

130 ára afmæli fagnað út árið

Kaupfélag Skagfirðinga varð 130 ára þann 23. apríl síðastliðinn. Sérstök afmælisnefnd hefur verið að störfum og nú þegar er búið að halda tónleika í Miðgarði og halda afsláttardaga í Skagfirðingabúð. Afmælinu verður fagnað í Skagafirði út árið.

„Það er í raun einsdæmi að svo fjölbreytt fyrirtæki sem félagið hefur verið og er enn í dag, skuli ná svo löngum samfelldum starfstíma,“ segir Þórólfur.

Umhverfismál voru mikið til umræðu á ársfundinum og var samþykkt að vinna að umhverfisstefnu fyrir félagið. Þá var samþykkt að veita 25 milljónum króna í Menningarsjóð KS.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK