Flóknari viðræður en búist var við

Tekið til hendi við sauðfjárslátrun í sláturhúsi Norðlenska, sem enn …
Tekið til hendi við sauðfjárslátrun í sláturhúsi Norðlenska, sem enn á í samrunaviðræðum við Kjarnafæði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Viðræður um samruna Kjarnafæðis og Norðlenska hafa reynst flóknari en reiknað var með þegar félögin tilkynntu viðræður sínar í ágúst síðastliðnum. Þetta herma heimildir mbl.is. Orðrómur þess efnis að viðræður hafi siglt í strand er hins vegar ekki réttur.

Sameining félaganna hefur verið til skoðunar af og til á undanförnum árum, en hingað til hefur slíkt ekki gengið upp. Þann 23. ágúst í fyrra barst tilkynning frá Íslandsbanka, sem veitir félögunum ráðgjöf í samrunaferlinu, að samkomulag hefði náðst um að hefja formlegar samrunaviðræður. Síðan hefur ekkert heyrst af stöðu mála.

Heimildir mbl.is herma að samrunaviðræðurnar hafi reynst umfangsmeiri en búist var við þar sem atriði hafi komið upp sem ekki var búið að sjá fyrir. Reynt sé að leysa þau mál, en lykilatriðið er þó að félögin eru enn í viðræðum og munu halda áfram þar til annað kemur í ljós.

Orðrómur um að viðræðum hafi verið slitið er því ekki réttur og herma heimildir mbl.is að bæði félög geri sér grein fyrir því að samruni þeirra muni borga sig til lengri tíma litið og haldi viðræðum því til streitu.

Hvorki Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, né Gunnlaugur Eiðsson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis, vildu tjá sig um stöðu mála í viðræðunum þegar leitast var eftir því.

Samkeppniseftirlitið hefur lokaorðið

Allar viðræður um samruna eru gerðar með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Ómögulegt er að segja til um á þessari stundu hversu ítarlega Samkeppniseftirlitið muni skoða samrunann, en stefnt er að því að samrunaviðræður félaganna verði lokið fyrir árslok 2019. Ekki er hins vegar hægt að klára málið án þess að Samkeppniseftirlitið leggi blessun sína yfir það.

Kjarna­fæði var stofnað árið 1985 og um 130 manns starfa hjá félaginu, en starfsemin fer að mestu fram á Svalbarðeyri. Norðlenska varð til árið 2000 við samruna KEA og Kjötiðjunn­ar Húsa­vík, en stækkaði árið 2001 þegar fé­lagið sam­einaðist þrem­ur kjötvinnsl­um Goða. Um 190 ár­s­verk eru unn­in hjá fé­lag­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK