Kæra stjórnendur Seðlabankans til lögreglu

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, greinir frá kærunni.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, greinir frá kærunni. mbl.is/​Hari

Stjórn útgerðarfyrirtækisins Samherja og forstjóri þess, Þorsteinn Már Baldvinsson, hafa kært fimm stjórnendur Seðlabankans til lögreglu vegna ætlaðra brota þeirra í starfi hjá Seðlabankanum.

Um er að ræða Má Guðmundsson seðlabankastjóra, Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóra, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, Rannveigu Júníusdóttur, núverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins og Sigríði Logadóttur, aðallögfræðing Seðlabankans.

Frá þessu greinir Þorsteinn Már á vef Samherja, þar sem hann segir Seðlabankann hafa hafnað formlega beiðni Samherja um sáttafund, „til að ákvarða bætur og málalok vegna tilhæfulausra aðgerða bankans gegn Samherja sem staðið hafa í rúm sjö ár“.

Ítrekað vilja til að ljúka málinu

Bendir hann á að þetta geri bankinn þrátt fyrir að formaður bankaráðs hafi tjáð Alþingi að hann teldi slíkan sáttafund eðlilegan af hálfu bankans. Umboðsmaður Alþingis hafi auk þess bent á að bankinn ætti að eiga frumkvæði að því að endurgreiða álagða sekt.

Á fundi með bankaráði 27. nóvember 2018 segist Þorsteinn Már hafa ítrekað vilja sinn til að ljúka málinu.

„Fullnægjandi málalyktir af okkar hálfu væru afsökunarbeiðni frá bankanum og bætur upp í útlagðan kostnað. Yrði þá ekki frekar aðhafst af hálfu Samherja. Allt kom fyrir ekki og þann 15. apríl sl. barst bréf frá lögmanni seðlabankans þar sem beiðni Samherja hf. um viðræðum var hafnað. Á svipuðum tíma barst mér svo bréf þar sem bankinn kvaðst ekki ætla að endurgreiða sekt sem lögð var á mig persónulega eða hlutast til um að hún verði greidd.“

Hann segir þessi tvö bréf lýsandi fyrir framkomu stjórnenda seðlabankans. Mál á hendur Samherja og síðar honum persónulega hafi verið rekin áfram á annarlegum sjónarmiðum.

Nauðsynlegt að beina kæru til lögreglu

Enn fremur hafi komið betur og betur í ljós, „í málflutningi seðlabankans, samskiptum bankans við fjölmiðla, aðdraganda húsleitar, álagningu sektar og ekki síst í harðorðum athugasemdum umboðsmanns Alþingis, að starfsmenn bankans tóku fjölmargar ákvarðanir um aðgerðir gegn Samherja í vondri trú og gegn betri vitund“.

Slík háttsemi varði við refsilög og feli í sér ásetningsbrot um rangar sakargiftir. Almennir borgarar séu látnir sæta refsingu fyrir slíka framkomu og rétt sé að háttsettir starfsmenn Seðlabanka Íslands sitji við sama borð og aðrir í þessum efnum og svari til saka eins og aðrir borgarar.

„Stjórn Samherja og ég persónulega höfum því talið nauðsynlegt að beina kæru til lögreglu á hendur Má Guðmundssyni, Arnóri Sighvatssyni, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, Rannveigu Júníusdóttur og Sigríði Logadóttur. Hefur kæra verið lögð fram hjá lögreglu. Þetta er ekki sú leið sem við hefðum kosið og höfum reynt að forðast en eins og hér hefur verið rakið er hún óhjákvæmileg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK