Afkoma Landsbanka 1,3 m.kr. lægri en í fyrra

Hreinar vaxtatekjur Landsbankans voru 10,2 milljarðar króna fyrir fyrstu þrjá …
Hreinar vaxtatekjur Landsbankans voru 10,2 milljarðar króna fyrir fyrstu þrjá mánuði þessa árs og hækkuðu um 6,3% á milli tímabila. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 6,8 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019, samanborið við 8,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,2% á ársgrundvelli, samanborið við 13,7% á sama tímabili 2018 að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bankanum.

Hreinar vaxtatekjur voru 10,2 milljarðar króna og hækkuðu um 6,3% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 2,1 milljarði króna og hækkuðu um 21,8% frá sama tímabili árið áður. Virðisrýrnun útlána nam hins vegar 1 milljarði króna á tímabilinu, samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Í lok mars 2019 var vanskilahlutfall bankans 0,7%, samanborið við 0,6% á sama tíma 2018.

Rekstrartekjur bankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 námu 15 milljörðum króna, samanborið við 16,8 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,7 milljörðum króna samanborið við 4,5 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Vaxtamunur eigna og skulda á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 2,5%,  en var 2,7% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins nam 6,2 milljörðum króna, en var 6 milljarðar króna á sama tímabili árið áður og er það hækkun um 3,4%.

Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins var 38,7%, samanborið við 37,9% á sama tímabili árið 2018.

Útlán jukust um 2,9% frá áramótum, eða um tæpan 31 milljarð króna. Útlánaaukning tímabilsins  er bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 2 milljarða frá áramótum.

Eigið fé Landsbankans var 246,2 milljarðar króna þann 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 23,8%.  Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 4. apríl 2019, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2018 að fjárhæð 9.922 milljónir króna. Arðgreiðslan kemur til lækkunar á eigin fé á öðrum ársfjórðungi 2019.

„Rekstur og efnahagur Landsbankans er traustur og arðsemi bankans góð, eins og gott uppgjör bankans fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 ber með sér,“ er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK