Norðmenn fjárfesta í íslenskum vindi

Zephyr hefur verið leiðandi í nýtingu vindorku í Noregi og …
Zephyr hefur verið leiðandi í nýtingu vindorku í Noregi og hefur þegar reist meira en 300 MW af vindafli þar í landi. Ljósmynd/Aðsend

Norska vindorkufyrirtækið Zephyr hefur stofnað dótturfyrirtæki á Íslandi; Zephyr Iceland. Markmiðið er að reisa hér vindmyllur og vindmyllugarða og bjóða umhverfisvæna raforku á hagkvæmu og samkeppnishæfu verði.

Zephyr er í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja: Glitre Energi, Vardar og Østfold Energi, sem eru öll í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja.

Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi, segir það sannarlega tímabært að byrja að nýta vindinn hér á Íslandi til raforkuframleiðslu og þannig stuðla að enn sterkari samkeppnishæfni Íslands.

Tugir milljóna í rannsóknir á vindaðstæðum

Fyrirtækið hyggst á næstunni verja tugum milljóna króna til rannsókna á vindaðstæðum á Íslandi. „Það þarf að mæla vind og það er gert með því að setja upp vindmastur, einfalt mastur með nákvæmum mælitækjum sem nær nokkuð hátt upp í loft, og svoleiðis tæki eru látin mæla vindinn í að minnsta kosti eitt ár á hverjum stað. Það er grundvallarþáttur í þessu,“ segir Ketill.  

Einnig þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum. „Hver og ein staðsetning kallar á að það sé fjárfest fyrir nokkuð marga tugi milljóna króna, áður en farið er í verkefnið sjálft,“ segir Ketill jafnframt, en segir það ekki tímabært að segja til hvaða staðsetninga hér á landi fyrirtækið sé að horfa. „Við erum að skoða allt landið og erum búin að tryggja okkur ákveðna staði til þess að rannsaka.“

Ketill segir að ýtrustu varkárni verði gætt við val á staðsetningu vindmyllugarðanna. „Við sjáum fyrir okkur að reyna að velja staði sem eru líklegir til að vera síður umdeildir, ef svo má segja.“

Morten de la Forest, stjórnarmaður í Zephyr á Íslandi, Ketill …
Morten de la Forest, stjórnarmaður í Zephyr á Íslandi, Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi, og Olav Rommetveit, forstjóri norska Zephyr og stjórnarformaður Zephyr á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Hvert verkefni um 50 MW

Zephyr hefur verið leiðandi í nýtingu vindorku í Noregi og hefur þegar reist meira en 300 MW af vindafli þar í landi. Sú fjárfesting jafngildir meira en 35 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið er nú að reisa þar nýjan 200 MW vindmyllugarð og verður því senn með um 500 MW af vindafli í rekstri. Það jafngildir raforkunotkun um 75 þúsund norskra heimila.

Ketill segir að verkefnið hér á landi verði af svipuðum toga og verkefnin í Noregi. „Svo þarf að taka tillit til þess að við erum eyland og menn virkja ekki á Íslandi nema að það sé kaupandi. En það er raunhæft að segja að á meðan vindorkuverkefni í Skandinavíu eru oft um 150 MW sé raunhæf stærð á Íslandi um það bil þriðjungur af því eða um 50 MW, þá má búast við því að svoleiðis verkefni væru kannski 12 til 14 vindmyllur. En þetta er ekki heilög tala,“ segir Ketill. Kostnaður við vindmyllugarð af slíkri stærðargráðu er á bilinu sjö til tíu milljarðar, að sögn Ketils.

Hafa unnið með Alcoa og Google

Í tilkynningu frá Zephyr kemur fram að félagið búi yfir mikilli tæknilegri þekkingu og víðtækri reynslu á öllum þáttum vindorkuverkefna og njóti auk þess góðra viðskiptasambanda við ýmsa sterka fjárfesta og fyrirtæki. Meðal nokkurra helstu viðskiptavina Zephyr í verkefnum fyrirtækisins fram til þessa eru álframleiðandinn Alcoa, fjárfestingafyrirtækið Black Rock og tæknirisinn Google.

Olav Rommetveit, forstjóri norska Zephyr og  stjórnarformaður Zephyr á Íslandi, segir í tilkynningu að hann sé afar ánægður með þá ákvörðun stjórnar Zephyr að Ísland verði fyrsti markaður fyrirtækisins utan Noregs. „Vindurinn á Íslandi, ásamt sveigjanleikanum sem íslenska vatnsaflskerfið býr yfir, skapar Íslandi óvenjugott tækifæri til að nýta vindorku með enn þá hagkvæmari hætti en í flestum öðrum löndum. Samhliða því að íslensk vindorka getur aukið hagsæld á Íslandi, munu verkefni Zephyr Iceland skapa nýjar tekjur fyrir bæði landeigendur og sveitarfélög,“ er haft eftir Rommetveit.

Zephyr er í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja: Glitre Energi, Vardar …
Zephyr er í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja: Glitre Energi, Vardar og Østfold Energi, sem eru öll í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Ljósmynd/Aðsend

Vindasöm og björt framtíð

Ketill er jafnframt hluthafi í fyrirtækinu en hann segir að sinn hluti muni minnka eftir því sem verkefnið þróast. „Þegar verkefnið verður orðið að veruleika vænti ég þess að sá hluti verði orðinn mjög lítill því þetta ræðst af framlagi. Eftir því sem verkefninu miðar áfram er hlutur hvers að breytast og eftir því sem meira er unnið í verkefninu þýðir það að norska fyrirtækið eykur sitt hlutafjárframlag. En ég verð með sem lítill hluthafi væntanlega.“   

Ketill segir að rétt eins og í verkefnum Zephyr í Noregi, muni Zephyr á Íslandi leggja höfuðáherslu á vandaðan undirbúning verkefna og góða upplýsingamiðlun, enda sé mikilvægt að breið sátt ríki um uppbyggingu af þessu tagi. „Framtíð Íslands er vindasöm og björt í senn,“ segir Ketill, sem býst við því að verkefnið verði að minnsta kosti fimm ár í þróun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK