Sammála um að daufur sé dellulaus maður

Sigurgísli Skúlason hefur rekið Golfbúðina í Hafnarfirði í 20 ár.
Sigurgísli Skúlason hefur rekið Golfbúðina í Hafnarfirði í 20 ár. Kristinn Magnússon

Um aldamótin voru 8.500 kylfingar á Íslandi. Frá þeim tíma hefur þeim fjölgað um 102% en um mitt ár í fyrra voru meðlimir í golfklúbbum landsins 17.165. Miðað við nýjustu uppgefnu veltutölur fimm stærstu golfklúbba landsins námu heildarrekstrartekjur þeirra um 1,4 milljörðum króna. Á þessum tíma hefur Sigurgísli Skúlason staðið vaktina í Golfbúð Hafnarfjarðar en að hans sögn var sumarið í fyrra slæmt. Það var í raun mörgum klúbbum erfitt, sér í lagi þeim sem reka sig að stórum hluta til á vallargjöldum. En vorið lofar góðu í ár og flestir vellir hafa sjaldan litið betur út á þessum árstíma.

Sigurgísli Skúlason hóf fimmtugur rekstur á Golfbúðinni sem iðulega er kennd við staðsetningu sína í Hafnarfirði. Áður en hann skipti um starfsvettvang starfaði hann sem sálfræðingur en röð tilviljana olli því að hann hellti sér út í verslunarrekstur. Það má segja að hann hafi lifað tímana tvenna í golfi. Golfbúðirnar hafa verið þónokkrar í gegnum tíðina og nefnir Sigurgísli í samtali við blaðamann að hrunið hafi verið erfiður tími fyrir þennan geira og að það hafi hvarflað að honum að hætta í bransanum. Svo fór hins vegar ekki og enn þann dag í dag, 69 ára gamall, stendur hann vaktina í búðinni sem verður 20 ára gömul í ár.

Í samtali okkar leggur Sigurgísli áherslu á það sem einkennir golfið. Það sé einstaklingsíþrótt sem geti sameinað unga sem aldna og hefur farið sífellt vaxandi hér á landi. Rekstur Sigurgísla hefur að sama skapi fylgt með.

„Já, það er svolítið þannig. Ég held að fólk hafi síðustu 20 árin öðlast meiri frítíma og þar eru íþróttir stærra atriði. Fólk er að hjóla, hlaupa og í ýmsum íþóttum. Sérstaða golfsins er aftur á móti sú að þar geta menn verið að spila á öllum aldri, allt frá 3 ára til 103 ára. Það eru nokkuð margir á tíræðisaldri að spila. Þetta er fjölskylduíþrótt. Hjón geta verið að spila. Ung og gömul. Konur og karlar. Afi getur verið með barnabarninu eða eiginkonunni. Þetta er voðalega þægilegt þannig og skýrir að hluta til þennan mikla vöxt. Þetta hentar mörgum. Golfið er einnig einstaklingsíþrótt. Þú ert á eigin vegum og þú ert ekki í neinu liði. Þú ert í liði með sjálfum þér og þínum vinum og kunningjum,“ segir Sigurgísli og heldur áfram.

„ Þú þarft líka að eiga þér eitthvert áhugamál. Sama hvað það er. Daufur er dellulaus maður, eins og guðfræðiprófessorinn Gunnlaugur A. Jónsson komst að orði,“ segir Sigurgísli.

Veröndin við 18. holuna á Hamarsvelli í Borgarnesi lítur vel …
Veröndin við 18. holuna á Hamarsvelli í Borgarnesi lítur vel út.
Ítarlega er fjallað um golfíþróttina á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag en ásamt Sigurgísla er m.a. rætt við Björn Víglundsson, formann Golfklúbbs Reykjavíkur, og Jóhannes Ármannsson, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Borgarness, sem báðir segja stöðuna á golfvöllum landsins um þessar mundir vera afar góða.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK