Kaupsýslumaður með ástríðu fyrir boltanum

Vincent Tan, eigandi Cardiff City, mætir jafnan á heimaleiki liðsins ...
Vincent Tan, eigandi Cardiff City, mætir jafnan á heimaleiki liðsins og situr í stúkunni íklæddur treyju liðsins. Vel gyrtur þó. AFP

Malasíski auðkýfingurinn Vincent Tan er við það að ganga frá kaupum á 80% hlut í Icelandair Hotels. Það er dótturfélag fjárfestingafélagsins Berjaya Corporation sem kaupir hlutinn, að því er greint var frá í ViðskiptaMogganum í gær. Áður hafði komið fram í fjölmiðlum að dótturfélag Berjaya Corporation hefði tilkynnt til kauphallarinnar í Kuala Lumpur að félagið væri að ganga frá yfir 1,6 milljarða kaupsamningi á fasteign að Geirsgötu 11.

En hver er þessi auðkýfingur og af hverju kýs hann að fjárfesta á Íslandi? Tan er 67 ára og er þekktastur fyrir að vera eigandi knattspyrnuliðsins Cardiff City sem leikið hefur í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Þræðir hans í viðskiptum liggja víða og hann er sagður hafa góð tengsl við stjórnmálamenn í heimalandi sínu. Tan hefur fjárfest í fjarskipta- og netfyrirtækjum, smásölu, fjölmiðlum, fasteignum og ferðaþjónustu auk veðmálafyrirtækja. Hann mun bera ábyrgð á innreið McDonalds-skyndibitakeðjunnar til Malasíu snemma á níunda áratugnum og síðar fleiri alþjóðlegum vörumerkjum.

Vincent Tan keypti Cardiff City árið 2010. Þótt hann hafi komið með nauðsynlega fjárfestingu inn í félagið og stuðningsmenn hafi glaðst eftir mögur ár féllu þó ekki allar hugmyndir hans og ákvarðanir í góðan jarðveg. Þannig þótti hann ekki sýna sögu félagsins næga virðingu þegar hann ákvað árið 2012 að liðið myndi leika í rauðum búningum í stað blárra eins og Cardiff hafði gert frá upphafi. Gælunafnið Bluebirds þótti ekki passa vel við rauða búninginni og margir stuðningsmenn sneru baki við liðinu. Um þverbak keyrði þó þegar Tan vildi breyta nafni liðsins í Cardiff Dragons. Tan bakkaði á endanum með þessa ákvörðun sína og Cardiff hefur leikið í bláu aftur frá 2015.

Ræðir við leikmenn Cardiff

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði þekkir vel til Vincents Tan eftir að hafa leikið í átta ár með Cardiff City. Hann ber Tan vel söguna: „Vincent Tan er bisnessmaður sem þykir vænt um sinn bisness. Maður sér það með Cardiff hvað hann hefur sett mikinn pening í klúbbinn. Hann vill að klúbbnum gangi vel.“

Aron segir að Tan sé duglegur að heilsa upp á leikmenn liðsins og ræða við þá. „Það er mikil ástríða í honum. Ég hef ekki fengið að kynnast bisnessmanninum Vincent Tan heldur bara í gegnum fótboltann. Eftir átta skemmtileg ár í Cardiff, þar sem gengið hefur upp og ofan, hef ég ekkert slæmt um manninn að segja.“

Hefur sambönd á Íslandi

Það virðist ekki koma Aroni mikið á óvart að Tan hafi ákveðið að fjárfesta á Íslandi. Tan hafi lengi verið áhugasamur um Ísland og talað um undurfagra náttúru landsins.

„Hann hefur heimsótt landið nokkrum sinnum og hefur heyrt í mér og spurt hvert hann ætti að fara. Hann hefur líka sambönd heim. Það hafa margir Íslendingar komið á leiki í Cardiff í gegnum hann. Tan hefur líka langað að gera eitthvað á Íslandi, hvort sem það væri í bisness eða ekki. Ég vissi þó ekkert af þessum áformum, hann hafði ekki spurt mig út í neitt af þessu,“ segir Aron Einar.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir