Creditinfo herðir að smálánafyrirtækjum

Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík. Morgunblaðið/Ernir

Creditinfo hefur ákveðið að skrá ekki á vanskilaskrá kostnað við lán sem er umfram lögbundið hámark. Kemur þetta til í ljósi vafa um lögmæti kostnaðar af tilteknum lánum að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Undanfarið hefur mikið verið rætt um lögmæti svokallaðra smálána og gagnrýnt að smálánafyrirtæki gætu skráð allar kröfur á vanskilaskrá óháð lögmæti slíkra krafna.

Hefur heildarkostnaður slíkra lána verið vel umfram lögbundið hámark kostnaðar samkvæmt lögum, en hingað til hefur lítið verið hægt að gera til að bregðast við því.

Sagði Hákon Stefánsson hjá Creditinfo Group meðal annars í morgunútvarpinu á Rás 2 í vikunni að besta leiðin væri að láta reyna á lögmæti lánanna fyrir dómstólum. Enginn hafi gert það hingað til, hvorki lánveitandi né skuldarar.

Smálánafyrirtækin eru í dag dönsk en bjóða upp á lán í íslenskum krónum og er meðal annars nauðsynlegt að viðkomandi sé með íslenska kennitölu.

Í tilkynningunni frá Creditinfo kemur fram að ákveðið hafi verið að skerpa á ferlum varðandi skráningu vegna þessa vafa. „Telur Creditinfo rétt að miða skráningu vanskila við höfuðstól þeirra lána sem bera kostnað umfram lögbundið hámark samkvæmt lögum um neytendalán.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK