Sá ríkasti í Asíu kaupir Hamleys

Verslun Hamleys við Regent-stræti í London.
Verslun Hamleys við Regent-stræti í London. mbl.is/Golli

Ríkasti maður Asíu, Mukesh Ambani, hefur keypt Hamleys-leikfangaverslunina í London á 88 milljónir Bandaríkjadala, tæpa 11 milljarða króna, af kínverska fyrirtækinu C. Banner International Holdings. Baug­ur keypti Ham­leys árið 2004 en leikfangaverslunin komst í eigu bankanna eftir hrun og fall Baugs.

Franska leik­fanga­versl­ana­keðjan Groupe Ludendo keypti Ham­leys af ís­lensku bönk­un­um árið 2012 og 2015 eignaðist kín­verski skófram­leiðand­inn C. Banner Ham­leys. Guðjón Reynisson var forstjóri Hamleys frá árinu 2008 til 2017.

Mukesh Ambani er nýr eigandi Hamleys.
Mukesh Ambani er nýr eigandi Hamleys. AFP

Fyrirtæki Ambanis, Reliance Brands, tilkynnti um kaupin seint í gærkvöldi en William Hamley opnaði fyrstu leik­fanga­versl­un­ina í London árið 1760 og er hún því 259 ára gömul. Í dag er Ham­leys að finna í mörg­um lönd­um, svo sem Kína, Rússlandi, Dubai og víðar.

Eignir Ambani eru metnar á 50 milljarða Bandaríkjadala samkvæmt Forbes-tímaritinu en hann hagnaðist fyrst á olíuvinnslu. Í dag spannar viðskiptaveldi hans breitt svið, allt frá tæknifyrirtækjum til raflagna. Undanfarin ár hefur hann keypt fjölda fyrirtækja í verslunarrekstri og má þar nefna Burberry, Canali, Paul Smith, Armani, Just Cavalli og Jimmy Choo.

Hann er einnig stór á indverskum netverslunarmarkaði og heyr þar harða baráttu við fyrirtæki eins og Amazon og Walmart. 

Þrátt fyrir að Hamleys-verslanir sé að finna víða um heim er verslunin í London alltaf helsta flaggskip fyrirtækisins en á hverju ári heimsækja um fimm milljónir verslunina. Rekstur Hamleys hefur aftur á móti verið erfiður og sést það sennilega best á því að C. Banner greiddi tæplega tvöfalt hærra verð fyrir Hamleys árið 2015 en félag Ambanis, Reliance Brands, greiðir fyrir Hamleys í dag.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK