Sendu reikning vegna villu í eigin kerfi

N1 gaf óvart 6 króna afslátt fyrirtækjaviðskiptum sínum um margra …
N1 gaf óvart 6 króna afslátt fyrirtækjaviðskiptum sínum um margra mánaða skeið. Þeir hafa sent fyrirtækjunum reikning um mismuninn, sem orsakaðist af villu í þeirra eigin kerfi. Ljósmynd/Aðsend

Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir, tryggingafulltrúi í Vestmannaeyjum, fékk í lok apríl reikning sendan frá N1 vegna afsláttar sem henni hafði verið gefinn fyrir mistök. Henni hafði verið gefinn 6 krónu afsláttur á lítrann af eldsneyti vegna villu í grunnkerfum N1 og fyrirtækið krafðist þess því af henni að hún greiddi upphæð því sem nam afslættinum.

Talsmaður N1 segir að um hafi verið að ræða villu sem kom upp í fyrirtækjareikningum og að félagið harmi að þurfa að senda þennan reikning.

Upphæðin voru 11.463 krónur með virðisauka. Reikningurinn var sendur 30. apríl og gjalddaginn var 31. maí.

Sigurbjörg segir í samtali við mbl.is að fyrir henni sé það ekki upphæðin sjálf sem skiptir máli, hún neyðist til að borga hana, svo einfalt sé það. Hún gerir aðallega athugasemd við vinnubrögðin.

„Ég hef lengi verið viðskiptavinur hjá þeim og því fylgja afsláttarkjör. Svo fékk ég allt í einu þennan bakreikning útaf kerfisvillu. Í staðinn fyrir að þeir segi bara frá því að villan hafi komið upp og að þeir ætli að láta mig njóta vafans, þá tilkynna þeir að ég verði að borga fyrir hana. Mér finnst það pínu frekt af þeim, þar sem villan er hjá þeim, ekki mér,“ segir hún.

Hún segist ekki þekkja til þess hjá öðrum fyrirtækjum að kúnninn sé látinn gjalda fyrir villur sem komi upp hjá fyrirtækinu sjálfu. Hún hringdi í N1 þegar hún fékk bréfið og fékk þau skilaboð að hún „yrði bara að borga þetta,“ segir hún.

Sigurbjörg kvaðst ekki þekkja það hvort aðrir hafi fengið svipaðan reikning en samkvæmt bréfinu frá N1 var umrædd kerfisvilla að verki á löngu tímabili, frá 25. september 2018 til 10. apríl 2019.

Sigurbjörg bætir því við að oft bjóði N1 upp á afslætti á tilteknum dögum og að þá hlaupi hún stundum til en að þessir afslættir skili sér stundum ekki inn á reikninga. Þær villur hafa ekki fengist leiðréttar, segir hún, en þessar eru það.

Reikningurinn sem Sigurbjörgu barst er á hennar eigin kennitölu. Hún segir að vera kunni að samningurinn sem hún eigi við N1 sé skráður á fyrirtæki en að reikningurinn sem er sendur sé stílaður á hana.

N1 harmar mistökin

„Við gerum okkur grein fyrir því að í einhverjum tilvikum kemur þetta illa við fólk,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, í samtali við mbl.is. Krafan stendur. „Við hörmum þessi mistök en þetta eru ekki stórar upphæðir hjá hverjum og einum,“ segir hann.

„Það sem gerist er að við erum að uppfæra hluta af tölvukerfinu okkar síðasta haust og þá verður einhver villa í kerfinu okkar sem gera það að villu að hluti af fyrirtækjakúnnunum fær röng kjör,“ útskýrir hann.

Hinrik segir að aðeins fyrirtækjakúnnar hafi liðið fyrir þessi mistök en á meðal þeirra kunni að vera einyrkjar ýmsir; bændur eða leigubílsstjórar til dæmis. Hinrik gefur ekki upp hversu mörg fyrirtækin hafi verið eða hvílíkar upphæðir hafi verið um að ræða.

Hann segir að fyrirtækið hafi kannað lagalegan grundvöll fyrir því að krefjast leiðréttingar á þessu og óski nú eftir því að fyrirtæki greiði því sem nemur upphæðunum sem voru ekki greiddar vegna villunnar.

„Hugsunin er bara sú að rétt skuli vera rétt. Ef þetta væri í hina áttina hefðum við líka leiðrétt þetta,“ segir Hinrik. Hann segir þá að dæmi sé um einmitt það hjá félaginu, slíkt rati bara ekki í fjölmiðla. Hann kveðst sjálfur hafa komið að máli við ýmis fyrirtæki sem N1 hefur þurft að biðja um að endurgreiða þennan mismun og að hann hafi ekki mætt neinu nema skilningi hjá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK