Á bak við kaupmanninn á horninu var kona

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Kristinn Magnússon

Pétur Hreinsson peturh@mbl.is Upplýst val neytenda, lýðheilsu- og umhverfismál eru þrjú meginstef í rekstri Krónunnar, að sögn Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra verslunarkeðjunnar. Að hennar mati fara þessi atriði vel með hagnaðarmarkmiðum fyrirtækisins. Gréta tók snemma að sér leiðtogahlutverk á vettvangi íþróttanna en tók við framkvæmdastjórastöðu Krónunnar á síðasta ári. Hún segir hlutverkið eiga vel við sig en saknar þess að sjá ekki fleiri kynsystur sínar í stjórnunarstöðum í matvörugeiranum.

Það leynir sér ekki hvað umhverfismál skipta Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar miklu máli. Blaðamaður var varla búinn að fá sér sæti er umræðan barst að mikilvægi þeirra en sjálf var Gréta nýkomin af hönnunarráðstefnu í Bandaríkjunum þar sem ábyrgð hönnuða í framleiðslu umbúða var rædd. Gréta segir mér að 40% af því plasti sem framleitt sé í heiminum fari í umbúðir. Í stöðu sinni sem framkvæmdastjóri einnar stærstu verslunarkeðju landsins vill Gréta hafa áhrif. Hún segir umhverfismál vera hluta af stefnu fyrirtækisins. Engir starfsmenn séu eyrnamerktir verkefnum sem snúa að samfélagslegri ábyrgð heldur séu starfsmennirnir allir sem einn með það í erfðaefni sínu að hugsa um þau málefni á hverjum degi. „Það skiptir fólk mjög miklu máli að fyrirtækið þitt sé að leggja sitt af mörkum,“ segir Gréta í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hafnaði fyrirliðabandinu

Krónan rekur í dag 20 verslanir en Gréta stýrir einnig einu Nóatúnsversluninni sem eftir er, auk tveggja Kjarvals-verslana og tveggja Kr-verslana. Gréta hóf störf sem fjármálastjóri Festar árið 2016 og kom þaðan úr fjármálageiranum. Við samruna olíufyrirtækisins N1 og Festar síðasta sumar var hún skipuð framkvæmdastjóri Krónunnar. Hún þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um að taka við því starfi. „Maður á aldrei að segja nei,“ segir Gréta og segir svo sögu af sjálfri sér af skiptinu þegar hún sagði nei í fyrsta og eina skiptið við tilboði um að taka við leiðtogahlutverki. Hún ólst upp á Flateyri þar sem íþróttir voru stundaðar af kappi á sumrin og í eitt skiptið var fram undan leikur í knattspyrnu. Þar var henni boðið fyrirliðabandið í liði Grettis skipuðu nánast eingöngu drengjum. „Ég var eina stelpan og mér fannst það svo skrýtið og sagði nei. Síðan þá hef ég alltaf sagt já. Ég sá svo eftir þessu því strákarnir voru ekkert betri en ég og ég átti þetta svo sannarlega skilið,“ segir Gréta. Hún er mikil íþróttakona og á að baki 15 A-landsleiki í körfuknattleik. Hún virðist hafa fæðst með leiðtogahæfileika en 23 ára gömul þjálfaði hún til að mynda meistaraflokk KR í úrvalsdeildinni með landsliðskonur innan borðs. „Þegar maður hefur verið viðstaddur umræður um leiðtoga hef ég oft hugsað með mér að ég hef aldrei þurft að hafa neitt fyrir þessu,“ segir Gréta sem hefur nú verið í um ár í starfi.

Gréta virðist því þannig vera vön karllægu umhverfi en hún er einmitt eina konan sem heldur á framkvæmdastjóratitli í matvörugeiranum. „Það er alveg ótrúlegt að þú finnur bara ekki konu í þessum geira. Það eru karlar sem stýra öllu tengdu matvöru. Bæði hjá framleiðendum, heildsölum, og svo tala ég nú ekki um eins og í öðrum fyrirtækjum eins og okkar. Auðvitað er þetta allt of karllægur geiri,“ segir Gréta. Nefnir hún í þessu skyni kaupmanninn á horninu, með áherslu á seinni hluta orðsins kaupmaður.

„En á bak við kaupmanninn á horninu var alltaf kona sem sá oft og tíðum um bókhaldið, pantanir og að allt gengi smurt fyrir sig, á meðan maðurinn var á gólfinu og talaði við viðskiptavinina. Það mættu svo sannarlega vera fleiri konur í þessum geira,“ útskýrir Gréta.

Sjá ítarlegt viðtal við Grétu Maríu á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK