Trump náðar Conrad Black

Conrad Black.
Conrad Black. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, veitti í gær breska útgefandanum Conrad Black sakaruppgjöf en Black sat á bak við lás og slá í meira en þrjú ár fyrir fjársvik og að hafa hindrað framgang réttvísinnar.

Í yfirlýsingu sem fylgdi með náðuninni frá forsetaembættinu segir að saksóknarar hafi sakað Black lávarð um að hafa svikið út fé og um hindranir. Hæstiréttur Bandaríkjanna var aftur á móti ekki á sama máli og sneri við nánast öllum ákæruliðum í málinu. Í yfirlýsingunni er Black, sem skrifaði bókina Donald J. Trump: A President Like No Other, sem frumkvöðli og fræðimanni sem hefur lagt mjög mikið af mörkum til pólitískrar og sögulegrar hugsunar.

Black var árið 2004 sakaður um að hafa svikið tugi milljóna Bandaríkjadala út úr eignahaldsfélagi í hans eigu, Hollinger International, þegar dagblöð þess voru seld. Hann hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og fór ítrekað í meiðyrðamál í Kanada gegn þeim sem sökuðu hann um misjafnt. 

Hann dæmdur í fangelsi fyrir brot á lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir að stjórnendur fyrirtækja troði á smærri hluthöfum. Black, sem var eitt sinn forstjóri þriðja stærsta útgáfufélagsins heims, var dæmdur í fangelsi árið 2007 fyrir að færa sölutekjur dagblaða inn í annað félag.

Frétt sem Guðmundur Sverrir Þór skrifaði um málið í Morgunblaðið árið 2007 kom fram að hann átti yfir höfði sér allt að 35 ára fangelsi en hann var dæmdur í sex ára fangelsi.

„Mál breska fjölmiðlamógúlsins Conrad Black sem lauk með dómi fyrir helgi vakti mikla athygli víða um heim. Þegar sem mestur völlur var á Black átti fyrirtæki hans, Hollinger, heimsþekkt dagblöð á borð við Chicago Sun-Times í Bandaríkjunum, Daily Telegraph í London og Jerusalem Post í Ísrael. Jafnframt átti fyrirtækið fjölda svæðisdagblaða í Bandaríkjunum en seldi þau smám saman og þar er að finna lykilþátt í máli bandaríska yfirvalda gegn Black.

Þegar mál hans er skoðað er mikilvægt að hafa í huga að Hollinger var hlutafélag, skráð á hlutabréfamarkað. Þegar svo er eru hluthafar eigendur félagsins, allir hluthafar, og þegar einn þeirra gerist of gírugur á eignir félagsins eða lætur það borga fyrir einkaneyslu sína, umfram samninga við félagið, er afar hætt við því að hann sé að brjóta á rétti annarra hluthafa.

En hvað var það sem Black var kærður fyrir og hvað var hann dæmdur fyrir?

Beint í vasann

Ákæruliðirnir voru alls fjórtán talsins og ber þar fyrst að nefna sex ákærur fyrir að hafa ekki skilað til hluthafa fjármunum sem Hollinger fékk fyrir að hefja ekki samkeppni við svæðisblöð sem höfðu verið í eigu fyrirtækisins en síðan seld. Slíkir samningar eru alvanalegir en Black og félagar hans í stjórn Hollinger sáu samkvæmt ákærunum ekki ástæðu til þess að láta hluthafa sína njóta ávaxta þeirra heldur stungu fénu beint í eigin vasa.

Þrír ákæruliðir fjölluðu um að Black hefði misnotað eigur Hollinger, og þar með hluthafa félagsins, til eigin þæginda. Þannig mun hann hafa notað flugvél félagsins þegar hann fór í frí á paradísareynni Bora Bora í S-Kyrrahafi og látið félagið borga stærstan hluta í afmælisveislu eiginkonu sinnar. Enn fremur var hann ákærður fyrir að kaupa lúxusíbúð í New York af Hollinger árið 2000, á sama verði og félagið keypti hana á sex árum áður en ætla má að fasteignaverð þar í borg hafi hækkað eitthvað á því tímabili.

Þá var hann ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar en á meðan rannsókn á málum Black stóð var hann staðinn að því að bera 13 kassa af skjölum út úr skrifstofum Hollinger, og braut hann þannig gegn úrskurði dómara. Enn fremur fjölluðu tveir ákæruliðir um skattsvik, þar sem tekjur frá þeim samningum sem fyrstnefndu sex ákæruliðirnir voru vegna skiluðu sér aldrei inn í bækur fyrirtækisins. Síðast en ekki síst ber að nefna ákæru fyrir fjárglæfra eða brask sem byggist á áðurnefndum ákæruliðum. Erlendir fréttaskýrendur eru sammála um að síðastnefndi ákæruliðurinn hafi verið sá alvarlegasti.

Póstsvik og kassaburður

Kviðdómur í málinu sýknaði Black af flestum ákæruliðanna, níu talsins, en fann hann sekan í fjórum þeirra. Þar af voru þrír fyrir póstsvik og sá fjórði var fyrir kassaburðinn. Talið er að Black gæti þurft að dúsa á bak við rimla í allt að 20 ár einungis fyrir kassaburðinn en fái hann þyngsta mögulega dóm gæti hann þurft að sitja inni í allt að 35 ár.

Þau póstsvik sem Black var fundinn sekur fyrir fela í sér þrjá af þeim sex ákæruliðum sem fyrst voru nefndir í þessum skrifum. Þannig mun Black hafa notað bandarísku póstþjónustuna til þess að svíkja hluthafa Hollinger um það sem þeim bar en það er bannað samkvæmt bandarískum lögum og var hann því dæmdur fyrir póstsvik. Hvað hina þrjá þeirra ákæruliða varðar var hann sýknaðar og hið sama á við um brask, skattsvik og misnotkun á eignum Hollinger.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK