Samdráttarskeið að hefjast

Landsbankinn spáir 14% fækkun ferðamanna.
Landsbankinn spáir 14% fækkun ferðamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir samfelldan hagvöxt frá og með árinu 2011 er komið að tímamótum í hagsveiflunni. Í kjölfar áfalla í ferðaþjónustu og sjávarútvegi er nú útlit fyrir efnahagssamdrátt á yfirstandandi ári. Samdrátturinn verður lítill og skammvinnur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2019-2021.

Hagfræðideild Landsbankans hafði gert ráð fyrir 2,6% hagvexti á þessu ári en vegna áfalla í ferðaþjónustu og sjávarútvegi, þ.e. gjaldþrots WOW air og loðnubrests, er nú gert ráð fyrir 0,5% samdrætti.

Reiknað er með að samdrátturinn vari stutt og á næsta ári megi gera ráð fyrir um 2,5% hagvexti, studdum af auknum fjárfestingum hins opinbera, íbúðafjárfestingu, einkaneyslu og hægfara viðsnúningi í ferðaþjónustu.

Gert er ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fækki um 14% á þessu ári, að þeim fjölgi svo um 5% á næsta ári og um 8,7% árið 2021. Ef sú spá gengur eftir mun fjöldi ferðamanna árið 2021 verða svipaður og hann var í fyrra.

Verðbólga á fyrsta ársfjórðungi mældist 3,1% en gert er ráð fyrir að hún nái hámarki á fyrri árshelmingi næsta árs og mælist þá 3,6%. Búist er við að verðbólga muni leita aftur niður á við og fara niður í verðbólgumarkmiðið, 2,5%, á öðrum ársfjórðungi 2021.

„Verðbólga á fyrsta ársfjórðungi 2019 mældist 3,1% en við gerum ráð fyrir að hún nái hámarki á fyrri árshelmingi næsta árs og mælist þá 3,6%. Upp frá því teljum við að verðbólga mun leita aftur niður á við og fara niður í verðbólgumarkmiðið, 2,5%, á öðrum ársfjórðungi 2021.

Minni óvissa varðandi launaþróun næstu ára í kjölfar undirritunar kjarasamninga til næstu fjögurra ára og tiltölulega stöðugt gengi krónunnar þrátt fyrir efnahagsáföll síðustu mánuði mun slá á langtímaverðbólguvæntingar í atvinnulífinu og hnika þeim í átt að verðbólgumarkmiðinu á ný.

Aukinn slaki í þjóðarbúinu mun aukinheldur í vaxandi mæli hafa kælandi áhrif á verðbólguþróunina og verðbólguvæntingar fram á mitt næsta ár. Það, ásamt inngripum seðlabankans á gjaldeyrismarkaði til að draga úr skammtímasveiflum á gengi krónunnar, skapar verulegt svigrúm til lækkunar stýrivaxta.

Tvær reglulegar vaxtaákvarðanir eru eftir á skipunartíma núverandi seðlabankastjóra, í maí og júní. Við teljum líklegt að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveði að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig í báðum tilfellum og að meginvextir bankans, þ.e. innlánsvextir á 7 daga bundnum innlánum, verði upp frá því 4,0% fram á mitt næsta ár. Eftir því sem verðbólgan lækkar í átt að markmiði á seinni hluta tímabilsins teljum við líklegt að hæfilegt verði að halda raunvaxtastiginu óbreyttu sem kallar á frekari lækkun stýrivaxta um eitt prósentustig í 0,25 prósentustiga skrefum fram á mitt ár 2021. Innlánsvextir Seðlabankans gætu því verið komnir niður í 3,0% undir lok spátímans,“ segir í nýrri þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans.

Aukinn slaki í þjóðarbúinu ásamt möguleika Seðlabankans til að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr skammtímasveiflum á gengi krónunnar, skapar verulegt svigrúm til lækkunar stýrivaxta. Í lok árs 2021 er gert ráð fyrir að stýrivextir Seðlabankans gætu verið komnir niður í 3,0%.

Gert er ráð fyrir að krónan veikist lítillega á þessu ári en styrkist aftur á næstu tveimur árum. Árið 2021 er gert ráð fyrir að landsframleiðsla vaxi um 2,9% sem skýrist fyrst og fremst af vexti einkaneyslu og útflutnings.

Ýmsir óvissuþættir geta haft veruleg áhrif á spána. Í ljósi viðsnúningsins í efnahagsþróuninni sem nú er fram undan eykst hættan á að hagstjórnarmistök geti haft neikvæð áhrif á þá aðlögun sem þarf að eiga sér stað, hvort sem er í stjórn peningamála eða ríkisfjármála. Ef fækkun ferðamanna verður mun meiri en spáin gerir ráð fyrir gæti það dýpkað samdráttinn á þessu ári töluvert og hægt á efnahagsbatanum á komandi árum. Aðrir óvissuþættir eru til að mynda gengisþróun krónunnar, óvissa varðandi verðþróun á húsnæði, efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum okkar og mögulegar breytingar á olíuverði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK