Rannsókn lögreglu verði hætt

Gylfi Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Eimskips. mbl.is/Árni Sæberg

Eimskipafélagi Íslands hf. barst eftir lokun markaða á föstudag bréf frá lögmanni Gylfa Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra félagsins. Tilefni bréfsins er krafa Gylfa um að rannsókn lögreglunnar á kæru Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2014 verði hætt. Samkeppniseftirlitið hefur haft málefni Eimskips samfellt til rannsóknar síðan 2010 eða í rúmlega níu ár.

Krafa Gylfa verður lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur á morgun, að því er kemur fram í tilkynningu frá Eimskipafélagi Íslands.

Aðalkröfu sína reisir Gylfi á því að rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi ekki hafist með lögmætum hætti. Rannsókn héraðssaksóknara sé afleiðing af rannsókn Samkeppniseftirlitsins sem sé slíkur ágalli að hún sé ólögmæt og að hana beri að fella niður.

Gylfi byggir kröfu sína einnig á því að rannsóknin hafi ekki farið fram á lögmætan hátt og að í henni felist brot á stjórnarskrárvörðum mannréttindum. Hún byggi á gögnum sem fengin hafi verið með hótunum um beitingu viðurlaga eftir að hann var kærður. Svo virðist sem héraðssaksóknari hafi rannsakað atriði sem Gylfi hafi ekki verið kærður fyrir. Þá hafi rannsóknin staðið yfir í mjög langan tíma.

Einnig er bent á það í kröfu Gylfa að rannsóknin á hendur honum sé ólögmæt, m.a. af þeim ástæðum að Samkeppniseftirlitið hafi leynt héraðsdóm upplýsingum við beiðni um húsleitarúrskurð hjá Eimskip, að lagaheimildir hafi ekki verið uppfylltar til húsleita, að lagaheimild hafi ekki staðið til þess að rannsaka hin haldlögðu gögn og að rannsókn málsins á hendur honum hafi í reynd verið í höndum starfsmanna Samkeppniseftirlitsins en ekki héraðssaksóknara, eins og lög áskilja.

Allt þetta eigi að leiða til þess að fella beri rannsóknina niður.

Um er að ræða kröfu Gylfa Sigfússonar en að því er segir í tilkynningunni mun Eimskip fylgjast grannt með framgangi málsins og meta næstu skref af hálfu félagsins í ljósi þess að margt sem fram kemur í kröfu Gylfa gæti einnig átt við um félagið sjálft og málið á hendur því. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK