Hvernig eru samskipti við helsta tæknirisa heims?

Borða á við þennan má sjá á viðkomustöðum strætisvagna í …
Borða á við þennan má sjá á viðkomustöðum strætisvagna í höfuðborginni um þessar mundir. Landsbankinn er hreykinn af þessari nýjung í þjónustu sinni. Enda kostaði hún fyrirhöfn. Skjáskot/Landsbankinn

Apple Pay er nýkomið til landsins. iPhone-eigendum hefur verið gert kleift, eftir langa bið sumra þeirra, að greiða með símanum sínum eins og hann væri greiðslukortið þeirra. Að fá þjónustuna til landsins var þó ekki auðsótt, alla vega ekki hjá Landsbankanum.

Landsbankinn er einn tveggja banka á Íslandi sem býður viðskiptavinum sínum upp á þessa þjónustu. Fyrir liggur að Apple eru ekki góðgerðarsamtök, þannig að Landsbankinn borgar þeim eftir samningi. Sá samningur er trúnaðarmál og í samtali við mbl.is biðst Helgi Teitur Helgason undan að gefa upp upphæðirnar vegna trúnaðar.

Helgi er framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans.

Í þessu viðtali gefur hann þó ýmislegt annað fróðlegt upp við blaðamann um langan, og strangan, aðdraganda þess að Landsbankinn landaði samningi við Apple um að koma Landsbankakortum inn í Apple Pay.

Landsbankinn lengi verið áhugasamur

„Þetta á sér langa sögu. Frá því að snjallsímar ryðja sér almennilega til rúms um 2009-2010 hefur fólk velt því fyrir sér af hverju ekki er hægt að borga með símanum,“ segir Helgi. „Og við förum auðvitað að hugsa það á sama tíma,“ bætir hann við.

Hann segir að menn hafi farið fram og til baka með þetta. Við blasi að greiðslur með síma séu möguleiki en hvaða leiðir bankinn velji fari eftir öryggisþættinum. Helgi segir að til greina hafi komið að gera app bankans fært um að borga í posa en ljóst hafi verið að sú tækni myndi ekki standast snúning við tækni Apple, eins og þegar kæmi að því að fá lausnina til að virka í útlöndum. Alls kyns hugmyndir hafi komið til skoðunar, meira að segja að bjóða upp á límmiða á símana sem myndu virka eins og kort. Horfið var frá því vegna öryggisatriða.

„Ég var í einhverju glensi og skrifaði þessum aðila hjá …
„Ég var í einhverju glensi og skrifaði þessum aðila hjá Apple öðruvísi og mjög óformlegan tölvupóst og hengdi við myndband af flugeldunum á Íslandi um áramótin. Ég sagði að við gætum kannski haldið smá flugeldasýningu ef Apple Pay kæmi til Íslands,“ segir Helgi, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans. Ljósmynd/Landsbankinn

Landsbankinn var því að vonum strax áhugasamur um Apple Pay frá árinu 2014, þegar það var kynnt. Bankinn þekkir, eins og aðrir, að lausnir Apple eru þekktar fyrir að virka fumlaust. Strax var farið í að láta Apple vita vita af þessum áhuga en það stóð á svörunum. Þegar ljóst var að notendur annarra farsíma en iPhone myndu geta farið að borga með símanum með kortaappi Landsbankans, varð Helgi enn áfjáðari í að ná sambandi við Apple og ná við þá samningum um innleiðingu Apple Pay fyrir íslenska neytendur.

Flugeldar um áramót hrifu Apple

Þetta var árið 2016. Það er flókið að ná sambandi við réttan aðila hjá Apple. „Það er ekkert símanúmer hjá Apple. Það er ekki hægt að hringja í þá,“ segir Helgi.

Með erfiðismunum varð hann sér úti um netfang hjá aðila sem sagður var hafa með þetta að gera hjá Apple í Bretlandi. Hann sendi póst og fékk ekkert svar. Engin viðbrögð. Þar við sat.

Þar til um áramótin 2016-2017. „Ég var í einhverju glensi og skrifaði þessum aðila hjá Apple öðruvísi og mjög óformlegan tölvupóst og hengdi við myndband af flugeldunum á Íslandi um áramótin. Ég sagði að við gætum kannski haldið smá flugeldasýningu ef Apple Pay kæmi til Íslands,“ segir Helgi.

Það hreif. Helgi fékk allt í einu viðbrögð.

„Þau voru nú ekki meiri viðbrögðin en stuttur póstur sem sagði að innleiðing Apple Pay á Íslandi væri ekki á dagskrá í bráð hjá Apple en að viðkomandi myndi hafa samband þegar svo yrði,“ segir hann.

Upp frá þessu hófust samskipti bankans við Apple sem smátt og smátt urðu meiri. Haustið 2018 fékk Landsbankinn, sem og aðrir aðilar sem lýst höfðu sama áhuga, skilaboð frá Apple um að nú ætti að innleiða þjónustuna á Íslandi. Þá fyrst fór ferlið af stað fyrir alvöru.

Apple gerir kröfur

„Þetta er mikið ferli. Apple er með mjög stífar notendakröfur og ef maður stenst þær ekki, fær maður ekki að bjóða upp á Apple Pay,“ segir hann.

Apple háttar þessu þannig að þeir gera kröfur um að vottunarfyrirtæki geri úttektir á bönkum sem vilja bjóða upp á þetta. Franskur vottunaraðili var sendur til Landsbankans, sem hafðist við á Íslandi í 10-14 daga, að sögn Helga. „Hann gerði mjög strangar kröfur. Hann lét bankann gefa út ýmsar tegundir korta og prófaði. Hann hefur ákveðin viðmið og tékkar í boxin og sér hvernig virkar að nota þjónustuna hér á landi,“ segir Helgi.

Fyrr á þessu ári bar svo við hjá Apple að …
Fyrr á þessu ári bar svo við hjá Apple að þeir kynntu sín eigin kreditkort. Ætli þau virki ekki best með Apple Pay. AFP

Landsbankinn stóðst prófið og fékk að undirbúa það að Apple Pay yrði boðið viðskiptavinum sínum. Svo gaf Apple dagsetningu, sem reyndist vera miðvikudagurinn 8. maí. Þá skyldi opna fyrir kerfið hér á landi. Að morgni miðvikudagsins opnuðu loks Landsbankinn og Arion banki fyrir Apple Pay og ætla má að Arion banki hafi fyrir það gengið í gegnum áþekkt ferli hjá Apple.

Íslenskir iPhone-eigendur ólmir í Apple Pay

Apple Pay er ekki komið hjá sumum stórþjóðum, eins og Hollandi og Portúgal. Þeir eiga eldraun þessa eftir. Þegar hafa 7000 viðskiptavinir Landsbankans skráð kortið sitt í Apple Pay og þeim fjölgar með degi hverjum, þannig að ljóst er að þetta er Íslendingum kærkomin nýjung. Notendur síma með öðrum stýrikerfum hafa haft kost á svipaðri þjónustu frá því 2018 með kortaappi Landsbankans en viðtökur við þjónustunni hafa verið mun ákafari hjá iPhone-eigendum.

Helgi segir að þróunin sé hröð í þessum málum og að ljóst sé að svona greiðslulausnir séu komnar til að vera. Hann sjálfur hafi ekki notað kortið sitt síðan hann fékk Apple Pay og að hann geri ráð fyrir að því sé eins farið hjá mörgum. Hann er stoltur af þessu. „Við erum að bæta þessu við í okkar þjónustu og viðskiptavinir taka þessu gríðarlega vel. Fólk sem borgar með Apple Pay eða kaupmenn sem taka við greiðslum með Apple Pay greiða engan viðbótarkostnað vegna þessa. Kostnaðurinn er sá sami og þegar greitt er með hefðbundnu greiðslukorti. Auðvitað kostar þetta, eins og önnur greiðslumiðlun, en viðbótarkostnaður fyrir neytendur vegna innleiðingarinnar er enginn,” segir hann.

Höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti.
Höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti. mbl.is/Árni Sæberg

Apple Pay öruggara en greiðslukort

Virkni Apple Pay er ólík þeirri virkni sem er í snertilausum plastkortum. Plastkortin krefjast þess að pinnið sé reglulega slegið inn og einnig ef kaup eru yfir ákveðnum fjárhæðarmörkum. Auðkenning við greiðslu með síma á sér hins vegar stað í símtækinu sjálfu en ekki með innslætti á posa og fjárhæðin sem hægt er að greiða ræðst af heimildinni á greiðslukortinu sjálfu. Helgi segir að greiðsla á posa með snjallsíma eins og t.d. Apple Pay sé í rauninni öruggara en greiðsla með greiðslukorti, þar sem enginn geti fylgst með manni greiða og nota pinnið. Andlit eða fingrafar korthafa sé auðkennið.

Apple Pay virkar í snjallúrum jafnt sem snjallsímum. Sagt er …
Apple Pay virkar í snjallúrum jafnt sem snjallsímum. Sagt er að greiðsluleiðin sé öruggari en eiginleg greiðslukort. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þá eru kortanúmer viðskiptavina ekki geymd í greiðslulausnum farsímanna heldur svokölluð sýndarnúmer. Það er vegna öryggis og gerir óprúttnum aðilum ómögulegt að komast yfir eiginleg kortanúmer viðskiptavina t.d. ef þeir tapa símum sínum. Í farsímunum er það svo NFC-virknin svonefnda (e. near field communication) sem ræsir greiðslulausnina án þess að það þurfi að opna símann eða greiðsluappið sjálft. Samskipti símans og posans um greiðslur byggja svo á þessum sýndarnúmerum, sem eru einkvæm og tilviljunarkennd.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka