Ragnar lætur af störfum sem forstjóri Norðuráls

Ragnar Guðmundsson.
Ragnar Guðmundsson. mbl.is/Sigurgeir

Ragnar Guðmundsson hefur óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri Norðuráls. Ragnar hóf störf hjá Norðuráli árið 1997 sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs og tók við sem forstjóri árið 2007. Hann mun verða stjórnendum Norðuráls til ráðgjafar næstu mánuði.  

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Gunnar Guðlaugsson hefur verið ráðinn forstjóri Norðuráls. Gunnar hóf störf hjá Norðuráli 2008 og hefur verið framkvæmdastjóri Norðuráls á Grundartanga frá 2009 og framkvæmdastjóri yfir starfsemi Century Aluminum í Evrópu og Asíu. Því hlutverki mun hann sinna áfram.

Haft er eftir Ragnari, að þau ár sem hann hafi starfað hjá Norðuráli hafi verið einkar ánægjuleg, ekki síst vegna þess góða fólks sem þar starfi.

„Ég er stoltur að hafa tekið þátt í að byggja upp fyrirtæki þar sem áherslan er á öryggis- og umhverfismál. Fyrirtæki sem á eftir að skapa verðmæti fyrir samfélagið um ókomin ár. Framtíð Norðuráls er björt,“ segir Ragnar í tilkynningunni.

Mike Bless, forstjóri Century Aluminum, sem er móðurfélag Norðuráls, þakkar Ragnari fyrir góð störf.

„Ragnar var einn af fyrstu starfsmönnum Norðuráls og vann náið með stofnendum að uppbyggingu fyrirtækisins. Þáttur hans í uppbyggingu og stjórnun Norðuráls hefur verið lykilþáttur í velgengni þess. Fyrir mína hönd og stjórnar Century Aluminum þakka ég Ragnari fyrir hans framlag til fyrirtækisins og óska honum velfarnaðar.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK