Hissa ef vaxtastigið verður ekki orðið töluvert lægra fyrir áramót

Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson. Haraldur Jónasson/Hari

Jón Bjarki Bentsson segir í samtali við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að ákvörðun Seðlabanka Íslands um 0,5% vaxtalækkun fyrr í dag, sé bæði skiljanleg og skynsamleg. Íslandsbanki hafi spáð 25 punkta lækkun, en hafi þó ekki útilokað þetta skref. Hann segir að sú spá hafi verið grundvölluð á fyrri reynslu af því að Seðlabankamenn vilji oft fara fetið í að breyta sínum ferlum. Eins og ákvörðunin hafi verið rökstudd sé hann nokkuð sammála Seðlabankanum.

Jón segir að trúverðugleiki Seðlabankans sé heldur að aukast eins og hann orðar það, og á þar við að trú manna í hagkerfinu á að bankinn geti náð og viðhaldið verðbólgumarkmiði, sé að aukast.  Hann segir þá trú vera þriðja hjólið í púsluspilinu sem tengist þeirri ákvörðun bankans að lækka vexti í morgun. Hin púslin séu efnahagshorfur sem hafi versnað og verðbólguhorfur sem hafi batnað.

Jón segir að sér finnist það hið besta mál að bankinn taki stærra skref en minna í sinni vaxtalækkun núna.  Hann segir að bankinn hafi verið gagnorður og skýr í sinni yfirlýsingu þegar vaxtalækkunin var tilkynnt, og hann telur að með því vilji bankinn gera öllum ljóst að hann vilji vera með puttann á púlsinum, og að þeir séu ekki ónæmir fyrir breyttum horfum í hagkerfinu.

Dempuðum oflætið

Í samtalinu við Viðskiptapúlsinn ræðir Jón Bjarki um það hvernig takist hafi að dempa mesta oflætið í hagvaxtarskeiðinu sem staðið hefur yfir síðustu ár, eins og hann orðar það, og koma í veg fyrir að heimili og fyrirtæki fari fram úr sér. Hann telur að hvatinn þar að baki komi bæði að innan og utan, eins og hann orðar það, og telur breytta tíma á þann veg að heimili og fyrirtæki séu orðin talsvert varfærnari og vilji hafa vaðið fyrir neðan sig, áður en farið er í stórar neysluákvarðanir á óvissutímum. Það sama eigi við um fjárfestingar. Þá skipti máli einnig að ramminn utan um fjármálakerfið og lánveitingar til heimila og fyrirtækja, er orðinn sterkari, og veiti meira aðhald. Það hafi orðið til þess að skuldsetning heimila og fyrirtækja hafi minnkað mjög jafnt og þétt fram á árið 2017, en verið í hóflegum vexti síðan þá.  Það þýðir að þeir sem verði fyrir einhverjum mótbyr nú þegar efnahagslífið gefur eftir, séu þá ágætlega í stakk búnir að taka á því.

Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka. mbl.is/Þórður

Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun spurði Jón Bjarki út í hvort að frekari vaxtalækkanir væru á leiðinni. Jón Bjarki segir að bankinn hafi svarað eins skýrt og skynsamlega og hann gat, sem túlka megi á þann veg að meira sé á leiðinni ef spáin þeirra sé nærri lagi.  Sjálfur telur Jón Bjarki að vaxtalækkun upp á hálfa prósentu og jafnvel meira, sé á leiðinni. Hann segist verða hissa ef vaxtastigið verður ekki orðið töluvert lægra fyrir áramót.

Einnig spurði Jón á fundinum um skoðun Seðlabankans á íbúðamarkaðnum, en Jón segir að bankinn sé að spá því að íbúðaverð muni frekar halda aftur af verðbólgu fremur en hitt. Hann segir í því samhengi, að þá sé það pínu óheppilegt, eins og hann orðar það, að gera eigi breytingu á viðmiði verðtryggingar, og vísitalan verði þá án húsnæðis, þegar íbúðaverð geti orðið sá þáttur sem verði til þess að verðtryggingin vegi til minni hækkunar á höfuðstóli lána, á sama tíma og laun séu að fara að hækka töluvert m.a.

Hlusta má á áttunda þátt Viðskipta­púls­ins hér að ofan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá Itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK