Jamie's sagt fórnarlamb harðnandi samkeppni

Jamie Oliver lagði fjórar milljónir punda í fyrirtækið í lok …
Jamie Oliver lagði fjórar milljónir punda í fyrirtækið í lok síðasta árs í von um að ná að rétta við reksturinn og árið áður lagði hann til þrjár milljónir punda. „Ég hef fullan skilning á hversu erfitt þetta er fyrir alla,“ sagði hann á Twitter. mbl.is/

Það var fyrir tilstilli sjónvarpsupptökuliðs að Jamie Oliver var uppgötvaður er hann starfaði á River Café-veitingastaðnum í London árið 1997. Í kjölfarið fylgdu vinsælu sjónvarpsþættirnir um Nakta kokkinn, bækur, tímarit og víðfeðmt veitingahúsaveldi.

Í október 2017 lagði matartímaritið Jamie upp laupana eftir tæplega tíu ára útgáfu. Í fyrra tapaði fyrirtæki Olivers næstum 20 milljónum punda. Í gær var svo tilkynnt að veitingahúsakeðjan Jamie‘s Itali­an hefði verið úr­sk­urðuð gjaldþrota auk veit­ingastaðanna Fifteen og Barbecoa, sem einnig voru í eigu kokks­ins. Jamie‘s Itali­an-staðirn­ir eru sam­tals 23 tals­ins og störfuðu um eitt þúsund og þrjú hundruð manns á stöðunum. Gjaldþrotið hef­ur þó ekki áhrif á Jamie‘s Itali­an-veit­ingastaði utan Bret­lands, und­ir merkj­um Jamie Oli­veri In­ternati­onal.

BBC segir hrun veitingahúsaveldisins vera mikið áfall fyrir Oliver, sem opnaði fyrsta veitingastaðinn, Fifteen, árið 2002. Þar veitti hann ungu atvinnulausu fólki starfsþjálfun á vinsælum tískustað í London.

Skiltið á Jamie's Italian í Glasgow. 23 stöðum í veitingahúsakeðjunni …
Skiltið á Jamie's Italian í Glasgow. 23 stöðum í veitingahúsakeðjunni var lokað með gjaldþroti í gær. AFP

Áhuginn dvínaði fljótt

Í kjölfarið fylgdu svo Jamie’s Italian-staðirnir sem hugsaðir voru fyrir fjöldamarkaðinn, en fyrsta staðinn stofnaði Oliver með ítalska kokkinum og læriföður sínum Gennaro Contaldo í Oxford árið 2008. Staðurinn sló samstundis í gegn og langar biðraðir mynduðust fyrir utan. Tugir staða til viðbótar víða um Bretland og síðar erlendis voru því opnaðir í kjölfarið. 

BBC segir áhugann á stöðunum hins vegar hafa dvínað fljótt, enda sé lítill skortur á sambærilegum veitingahúsakeðjum sem líka byggja á ítalskri matargerð. Þannig hafði nokkrum Barbecoa og Jamie‘s Italian verið lokað undanfarin tvö ár.

Er veitingahúsakeðjan sögð vera síðasta fórnarlamb sífellt erfiðara viðskiptaumhverfis í miðbæjum breskra borga og bæja. Áætlar gagnafyrirtækið CGA að útibúum sem tilheyra veitingahúsakeðjum í Bretlandi hafi fækkað um 30% á síðustu fimm árum.

Sjálfur hefur Oliver sagst vera „niðurbrotinn“ vegna gjaldþrotsins. Hann lagði fjórar milljónir punda í fyrirtækið í lok síðasta árs í von um að ná að rétta við reksturinn og árið áður lagði hann til þrjár milljónir punda. „Ég hef fullan skilning á hversu erfitt þetta er fyrir alla,“ sagði hann á Twitter.

Hélt ekki í við tískustrauma

Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kjölfarið sagðist hann vilja þakka öllum þeim viðskiptavinum sem hafi stutt fyrirtækið undanfarinn áratug. „Það er búið að vera sönn ánægja að þjóna ykkur,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Þegar við opnuðum Jamie's Italian árið 2008 var það með það að markmiði að valda usla á meðaldýrum stöðum í Bretalandi með því að bjóða gæðahráefni á betra verði, með bestu stöðlum varðandi dýravelferð og með frábæru starfsfólki sem deildi ástríðu minni fyrir frábærum mat og þjónustu. Og við gerðum nákvæmlega þetta.“

Tilkynning um lokunina á hurð eins veitingastaðanna. Gagnafyrirtækið CGA áætlar …
Tilkynning um lokunina á hurð eins veitingastaðanna. Gagnafyrirtækið CGA áætlar að útibúum sem tilheyra veitingahúsakeðjum í Bretlandi hafi fækkað um 30% á síðustu fimm árum. AFP

Simon Mydlowski, lögfræðingur hjá Gordons-lögfræðistofunni sem er sérfræðingur í veitingaiðnaðinum,  segir Jamie ekki hafa haldið í við tískustrauma. „Ef maður ætlar að vera farsæll í þessum iðnaði þá verður maður að vera að gera stöðugar breytingar — allt frá matseðlinum og drykkjarvalinu til þess að halda samræðunni við viðskiptavini gangandi,“ sagði Mydlowski. 

„Er þeir standa frammi fyrir hærri leigu, hækkandi matarverði og aukinni samkeppni verða veitingastaðir að skera sig úr. Það er engin tilviljun að minni vörumerki sem hafa frelsi og sveigjanleikann til að viðhalda ferskleikanum eru þau sem eru að standa sig vel í dag.“

Skelfilegur mishljómur í saltri sósu

Slæmir dómar gagnrýnenda undanfarið hafa efalítið ekki hjálpað. Árið 2008 skrifaði Matthew Norman veitingastaðagagnrýnandi Guardian: „Ef Jamie getur endurgert Oxford-útgáfuna mun hann brátt reka verðlaunahjörð kreppufrírra gullkálfa þvert yfir landið.“ 

Dómur sem Marina O‘Laughlin skrifaði í Sunday Times síðasta sumar var öllu minna jákvæður. „Skelfilegur, mishljómur í saltri sósu, brúnt og rykugt af múskati,“ skrifaði O‘Laughlin um tagliatelle pasta með truflum á Jamie‘s Italian í Stratford.  Vesen vegna innköllunar á kjöti frá birgja, sem breska matvælaeftirlitið sagði ekki mæta stöðlum um hreinlæti, hefur efalítið ekki heldur bætt stöðuna.

Jonathan Woodhouse, fyrrverandi framkvæmdastjóri Fifteen í London, telur Oliver ekki um að kenna. Hann viðurkennir þó að veitingastaðakeðjan hafi verið orðin of stór og reynt að gera of mikið. Oliver, segir hann hins vegar, „fær slæma umsögn um allt“.

Vinnan á Fifteen hafi verið „eitt besta starf“ sem hann hafi unnið og sjónvarpskokkurinn hafi verið að reyna að gera nokkuð einstakt þar með lærlingsstöðunum. „Það er átakanlegt að frétta að hann kunni að fara á hausinn,“ bætti Woodhouse við.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK