Ekki óskiljanlegt í ljósi aðstæðna

Már Guðmundsson á fundinum í dag.
Már Guðmundsson á fundinum í dag. mbl.is/​Hari

Upplýsingarnar sem Seðlabankinn hefur undir höndum styðja það ekki með „miklum hætti“ að ráðstöfun 500 milljóna evra þrautavaraláns til Kaupþings 6. október 2008, hafi verið óeðlileg. Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri en í dag var kynnt á blaðamannafundi skýrsla bankans um lánið.

„Það er alveg ljóst eftir á að hyggja að það hefði verið betra að gera þetta ekki. En er það fullkomlega óskiljanlegt í ljósi aðstæðna? Mér virðist ekki.“

Aðspurður kveðst hann í samtali við mbl.is ekki vilja kveða endanlega upp úr um hvort lánið hafi verið notað með eðlilegum hætti og nefnir að peningar séu ekki eyrnamerktir þegar þeir eru komnir inn á reikning. Því sé erfitt að draga einhverja ályktun og segja að lánið hafi verið notað með óeðlilegum hætti. „Það liggur fyrir að ef það er litið á þær greiðslur sem greiddar voru á þessum tíma eru að minnsta kosti þrjár þeirra þess eðlis að ef þær hefðu ekki verið greiddar þá hefði bankinn fallið þegar og þá og þetta safnast upp í 442 milljónir evra,“ segir hann og telur einnig til 50 milljónir evra í því samhengi.

„Aðrir gætu náttúrulega sagt að það var líka að koma þarna inn annað fé, 698 [milljónir evra]. Hvað var það nýtt í? Það var þarna útstreymi á öðrum liðum eins og gjaldeyrisviðskiptum og við vitum ekkert nákvæmlega hvað var á bak við það en það ætti að vera eðlilegt að líta þannig á að ef þeir sem voru að rannsaka þessi mál töldu eitthvað óeðlilegt að þá hefðu þeir átt að skoða það og kannski var það gert. Ég held að þessar upplýsingar….eigum við ekki að segja að þær eru ekki að styðja það með einhverjum miklum hætti að ráðstöfunin hafi verið óeðlileg,“ greinir bankastjórinn frá.

.
. mbl.is/Ófeigur

Engin lögsaga varðandi saknæmi

Spurður út í saknæmi í tengslum við lánveitinguna segir hann bankann ekki hafa rannsakað málið út frá þeim sjónarmiðum. Eingöngu var athugað hvað var gert af hálfu Seðlabankans og hvað var á bak við þær ákvarðanir sem hann tók. „Ef þú ert að tala um saknæmi þá ertu að fara að tala um einhverja einstaklinga og við eigum enga lögsögu í því. Það er bara annarra að véla um það en ég get sagt að það var ekkert sem mann hnaut um.“

Að hluta til geggjun

Ekki liggur fyrir texti af hálfu Seðlabankans, eða annarra stjórnvalda, þar sem koma fram þau sjónarmið sem lágu að baki lánveitingunum. Einn af lærdómunum sem Már telur að draga þurfi af því sem gerðist er að skýra þarf betur stjórnsýsluna í kringum veitingu lána til þrautarvara.

„Aðalatriðið í þessu er að við hugsum aðeins og drögum lærdóma inn í framtíðina varðandi hvernig á að standa að svona málum í framtíðinni. Auðvitað er það svo að við erum búin að tapa 240 milljónum evra, svona líklegast, og það er ekki gott,“ segir hann en í skýrslunni kemur fram að fyrir liggur að Seðlabankinn muni líklega ekki endurheimta mikið meira af 500 milljóna evra láni sínu til Kaupþings en sem nemur 260 milljónum evra.

„Fyrsti lærdómurinn að mínu mati er að það þarf að skýra stjórnsýsluna í kringum lánveitingar til þrautarvara af þessu tagi og það er að mínu viti gert í nýju frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi núna þar sem gert er ráð fyrir að seðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar taki ákvörðun af þessu tagi. Það verði að skrá það í fundargerð sem að mínu viti þýðir að það er skráð hvað er gert en líka einhver greinargerð um af hverju það er gert. Það er það sem vantar formlega séð,“ segir hann og á þar við núverandi fyrirkomulag.

Spurður nánar út í stjórnsýsluna, meðal annars að engar fundargerðir hafi verið um lánveitinguna, segir Már að bankastjórnin hafi ekki haldið fundargerðir en að hún hafi skrifað niður svokallaðar bankastjórnarákvarðanir.

„Enn þann dag í dag er verið að gera slíkar ákvarðanir, oft af miklu, miklu, miklu minni tilefnum heldur en þessum. Auðvitað voru þetta óheyrilega skrítnir tímar og það er auðvelt að setjast í eitthvað dómarasæti og ég ætla ekki að gera það. Ég held að við hljótum að vera sammála um það að til framtíðar þá eigi ekki að gera þetta þannig.

Var mögulega einhver feluleikur í gangi?

„Ég er ekkert endilega viss um það. Ég hef ekki hugmynd um það. Þetta var að hluta til bara geggjun sem gekk á þannig að ég hef engar forsendur til að meta það. Mér finnst það ótrúlegt ef það væri hægt að fela þennan gjörning,“ segir Már.

Már á fundinum í dag.
Már á fundinum í dag. mbl.is/​Hari

Báðar forsendur voru rangar

Már telur að leiða megi að því líkum að með lánveitingunni hafi átt að tryggja að það yrði einn alhliða banki starfandi í landinu. „Ef það hefði tekist hefði það auðvitað verið mikilvægt og að það væri hægt að gera það án þess að taka of mikla áhættu vegna þess að veðið í FÍH bankanum væri traust. Nú kemur það í ljós eftir á…..við vitum það núna að báðar forsendur voru rangar. Það er ekki þar með sagt að það sé ekki skiljanlegt þetta sjónarmið og það sé hægt að ætlast til þess að þeir sem tóku þessar ákvarðanir hafi vitað hvernig Kaupþingsbanki  leit út í raun og veru þegar hann var opnaður eftir dauða sinn og hitt að menn hafi séð fyrir þær miklu þrengingar sem urðu í dönsku  efnahagslífi og þá miklu bankakreppu sem var í uppsiglingu í Danmörku. Þetta var skiljanlegt þannig lagað,“ greinir Már frá.

Hann segir einnig mikilvægt að seðlabankar hafi góða sýn á það á hverjum einasta tíma hvaða veð séu tiltæk í bönkunum fyrir fyrirgreiðslu til þrautarvara. Einnig bendir hann á að almennt séð séu veð í hlutafé erlends banka óheppileg í þessu sambandi. „Bæði vegna þess að hlutafé getur rýrnað mjög ört, sérstaklega í bankakreppu og fjármálakreppu eins og þarna var og ekki í banka sem er í erlendri lögsögu vegna þess að þá ertu kominn inn í aðstæður sem þú hefur minni stjórn á. Mér finnst þetta vera lærdómarnir en auðvitað eru þeir kannski fleiri og fleiri muni sjá það og verður vonandi gagnleg umræða um það í framhaldinu.“

Trúnaðarákvæði í samningum töfðu 

Fjögur ár eru liðin síðan Seðlabankinn ákvað að gera skýrslu um sölu danska bankans FIH, sem var notaður sem veð í viðskiptunum. Í formála seðlabankastjóra í skýrslunni er farið yfir ástæðurnar fyrir þessum langa tíma og bent á að síðar hafi verið ákveðið að bæta umfjöllun um 500 milljóna evra lánveitinguna við skýrsluna. Einnig hafi trúnaðarákvæði í samningnum tafið og flækt ritun skýrslunnar.

„Mikið efni liggur fyrir um söluna á FIH og þær breytingar á samningnum um hana sem gerðar voru á árunum á eftir. Það er hins vegar ekki auðhlaupið að túlka það efni og setja saman í aðgengilegan texta án töluverðrar aðkomu þeirra sem stóðu í samningunum. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða starfsmenn sem hafa verið mjög önnum kafnir í öðrum verkum. Reynt hefur verið að fylgja þeirri meginreglu í starfi Seðlabankans á undanförnum árum að úrlausnarefni nútíðar og framtíðar hafi forgang umfram málefni fortíðarinnar,“ segir í formálanum.

„Þá flæktu og töfðu trúnaðarákvæði í samningum ritun skýrslunnar. Mikill tími fór í það á síðustu mánuðum að finna út úr því hversu langt væri hægt að ganga í þeim efnum að segja frá efni samninganna. Í því sambandi var skoðað hvað hafði verið birt í dönskum fjölmiðlum og haft var samráð við danska lögmenn. Þetta skilaði þó þeim árangri að flest það sem máli skiptir fyrir söguna er til haga haldið í skýrslunni. Það að bæta lánveitingunni við skýrsluna tafði líka verkið. Öfugt við söluna á FIH eru tiltæk gögn varðandi lánveitinguna fátækleg og varðandi ýmis atriði þurfti að styðjast við minni og munnlega frásögn þeirra sem tóku þátt í ferlinu. Seðlabankinn hafði ekki gögn um ráðstöfun lánsins fyrr en í kringum síðastliðin áramót eins og nánar er fjallað um í meginmáli skýrslunnar,“ segir þar einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK