Félag í eigu athafnamannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar tók þátt í skuldafjárútboði flugfélagsins WOW air í haust og skráði sig fyrir 3 milljónum evra af þeim 50,15 milljónum evra sem alls söfnuðust í útboðinu.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptafréttastjóra Morgunblaðsins, sem fjallar um ris og fall flugfélagsins. Í bókinni, sem kemur út í dag, er greint frá því í fyrsta skipti hverjir það voru sem skráðu sig fyrir skuldabréfum í útboðinu í haust. Athygli vekur að yfir helmingur þess fjár sem safnaðist í útboðinu, 51%, kom frá einstaklingum og fyrirtækjum sem stóðu flugfélaginu og Skúla Mogensen stofnanda þess nærri, ýmist persónulega eða vegna viðskiptahagsmuna.
Stefán Einar segir í bók sinni að listinn sem hann hafi undir höndum um þátttakendur í skuldabréfaútboðinu bendi sterklega til þess að ríflega helmingur þess fjármagns sem safnaðist hafi í raun runnið frá þátttakendunum til þeirra sjálfra í gegnum fléttu sem miðaði að því að breyta eðli skulda félagsins úr skammtímaskuldum, sem sumar voru gjaldfallnar, í langtímaskuld í formi skuldabréfs. Þannig hafi það fé sem WOW air safnaði í útboðinu ekki nema að takmörkuðu leyti skilað sér til félagsins sem nýtt rekstrarfé.
Þeir aðilar sem höfundur segir að hafi tekið þátt í skuldafjárútboðinu á þessum forsendum eru flugvélaleigufyrirtækin Avolon og AirLease Corporation (ALC), flugvélaframleiðandinn Airbus, félagið Reliquum, sem er í eigu Björgólfs Thors, Arion banki, REA ehf., Öryggismiðstöðin og S9 ehf., sem er í eigu Margrétar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi eiginkonu Skúla.
Skúli Mogensen keypti sjálfur skuldabréf fyrir 5,5 milljónir evra í útboðinu eins og áður hefur verið greint frá, Avolon tók fimm milljónir evra, ALC skráði sig fyrir 2,5 milljónum evra og Airbus keypti fyrir sömu upphæð. Arion banki, sem var viðskiptabanki WOW air, tók 4,3 milljónir evra og félag Margrétar tók 1,5 milljónir evra.
REA ehf., móðurfélag Airport Associates sem þjónustaði WOW air á Keflavíkurflugvelli, keypti skuldabréf fyrir milljón evrur og Öryggismiðstöðin, sem hafði átt í viðskiptum við WOW, keypti fyrir 500.000 evrur.
Félag Björgólfs Thors keypti skuldabréf fyrir þrjár milljónir evra, eins og áður segir. Orðrómur hefur verið á kreiki í mörg ár um að Björgólfur Thor hafi haft einhverja aðkomu að flugfélaginu, en ekkert hefur komið fram þess efnis fyrr en nú. Hann og Skúli Mogensen eru gamlir vinir og stóðu saman í skemmtistaðarekstri í Reykjavík á tíunda áratug síðustu aldar.
Aðrir sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu voru innlend fjármálafyrirtæki og erlendir fjárfestar og sjóðir. Tveir sjóðir í stýringu GAMMA keyptu samanlagt skuldabréf fyrir tvær milljónir evra, annar þó stærri hlutann eða 1,8 milljónir evra. Kvika banki lagði svo eina milljón evra í útboðið.
Bandaríska fjárfestingafélagið Eaton Vance var stærsti einstaki kaupandinn í skuldabréfaútboðinu og keyptu þrír vogunarsjóðir félagsins samtals skuldabréf fyrir 10 milljónir evra og nam fjárfesting Eaton Vance því um 20% af heildarumfangi útboðsins.
Ýmsir evrópskir fjárfestingarsjóðir, alls 20 talsins, keyptu svo skuldabréf fyrir samanlagt 11,4 milljónir evra. Norski lífeyrissjóðurinn MP Pensjon lagði þeirra mest til, eða 2 milljónir evra. Sjóður sænska bankans Swedbank, sem stýrt er frá Lúxemborg, lagði svo til 1,5 milljónir evra og sænska sjóðstýringarfyrirtækið Peak AM lagði til sömu fjárhæð. Aðrir evrópskir fjárfestar lögðu minna til, eða á bilinu 0,1-1 milljón evra.
Stefán Einar kynnir bók sína, sem ber heitið WOW: ris og fall flugfélags, á hádegisfundi í Norræna húsinu í dag.
Þar fer höfundurinn yfir helstu efnistök bókarinnar, ásamt því sem Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, flytur erindi um áhrif WOW air á uppgang og síðar samdrátt íslenskrar ferðaþjónustu.