Semja við stærsta gagnaver Svíþjóðar

Guðbrandur R. Sigurðsson frá Endor og Robert Lundberg frá Fortlax/Eco ...
Guðbrandur R. Sigurðsson frá Endor og Robert Lundberg frá Fortlax/Eco Data Center innsigla samstarfið. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Endor hefur gert samning við Fortlax-gagnaverið í Svíþjóð, sem var nýverið keypt af Eco Data Center, um samvinnu við sölu og afhendingu á lausnum og þjónustu beggja aðila. Sameinað félag Fortlax og Eco Data Center verður stærsta gagnaver Svíþjóðar.

Fram kemur í tilkynningu að Endor hóf nýlega starfsemi í Svíþjóð undir nafninu EC Sweden og er það alfarið í eigu Endor á Íslandi. Umfang starfsemi EC Sweden er nú þegar svipað og hjá Endor á Íslandi. Stofnun EC Sweden er liður í uppbyggingu Endor sem alþjóðlegs upplýsingatæknifyrirtækis. Eigendur og stjórnendur félagsins hyggja á frekari landvinninga á komandi misserum og er stefnt að því að opna fleiri skrifstofur á meginlandi Evrópu síðar á þessu ári. Rekstur félagsins hefur verið jákvæður og stöðugur frá stofnun árið 2015 en Endor sérhæfir sig meðal annars í flóknum og krefjandi innleiðingum ofurtölvulausna.

„Þessi samningur hjálpar okkur að ná betri fótfestu á sænska markaðnum. Starfsemi Endor byggir á íslensku hugviti sem gerir viðskiptavinum okkar kleift að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri hjá sér,“ er haft eftir Gunnari Guðjónssyni, forstjóra Endor, í tilkynningu. Segir hann sérhæfingu Endor vera fágæta og að það sé mikil spurn meðal stórfyrirtækja víða í Evrópu eftir þjónustu við ofurtölvur.

„Aðstæður á sænska markaðinum eru svipaðar þeim íslenska og þar eru mikil tækifæri. Því teljum við Svíþjóð góðan stað til að opna fyrstu skrifstofu Endor utan Íslands og það er mikil tilhlökkun að byggja upp og styrkja EC Sweden á þessum spennandi en jafnframt krefjandi markaði,” segir Gunnar jafnframt.

Endor er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga í upplýsingatækni og nýtir til þess meðal annars nýjustu tækni í sjálfvirknivæðingu. Vöxtur Endor hefur verið hraður frá stofnun árið 2015 og vinnur félagið nú með fjölbreyttum alþjóðlegum hópi viðskiptavina og samstarfsaðila. Má þar nefna Atos, Íslandsbanka, DK hugbúnaðarhús, BMW, Verne Global, RÚV og Reiknistofu bankanna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK