Orkuhúsið mun flytja í Urðarhvarf

Unnið hefur verið að því að klára Urðarhvarf 8 síðustu …
Unnið hefur verið að því að klára Urðarhvarf 8 síðustu mánuði og verður frágangur utan á húsi, í sameiginlegum rýmum og á lóð lokið síðar í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Orkuhúsið og Reykjastræti fasteignafélag hafa skrifað undir 20 ára leigusamning um leigu á rúmlega 4 þúsund fermetrum í Urðarhvarfi 8. Mun Orkuhúsið hefja rekstur á nýjum stað í byrjun næsta árs, en í Orkuhúsinu er rekinn stærsti einkarekni meðferðarstaðurinn á sviði stoðkerfisvandamála á Íslandi. Að baki rekstrinum standa Læknastöðin, Sjúkraþjálfun Íslands og Röntgen.

Byggingin við Urðarhvarf stendur við gatnamót Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs, en saga hússins hefur verið talsvert til umfjöllunar, enda er húsið samtals 17.500 fermetrar og stóð lengi ónotað. ÞG Verk hóf smíði húss­ins árið 2006 en gerði hlé á fram­kvæmd­um 2008. Íslands­banki eignaðist húsið í skulda­upp­gjöri 2011 og eignaðist verk­taka­fyr­ir­tækið Þingvang­ur svo húsið. ÞG Verk keypti bygg­ing­una aft­ur síðasta vor og mun afhenda fyrstu leigjendum á þessu ári. Undir húsinu er bílakjallari á tveimur hæðum, samtals 8 þúsund fermetrar.

Páll Ólaf Pálsson, hjá Reykjastræti, segir í samtali við mbl.is að þegar sé búið að leigja út aðra rúmlega 2 þúsund fermetra og þá er í skoðun útleiga á 6 þúsund fermetrum. Tekur hann fram að sérstaklega sé það frá fyrirtækjum í heilbrigðistengdum rekstri. Leynir hann því ekki að áhugi Reykjastrætis sé að fá sem flesta í slíkri þjónustu í húsið, en meðal annars er sérstaklega gert ráð fyrir slíkri starfsemi í húsinu og mun verkfræðistofan Efla taka húsið út með tilliti til þess.

Nýlega var tilkynnt vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu á svokölluðum Orkuhúsreit, þar sem Orkuhúsið er nú með rekstur. Á að byggja upp á reitum samtals 450 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK