Skúli sakar Stefán Einar um dylgjur

Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, segist ekki hafa haft áhuga …
Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, segist ekki hafa haft áhuga á að ræða við Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu, um WOW air þar sem Stefán Einar hafi áður borið fram alvarlegar ásakanir og rangfærslur í garð WOW air sem áttu ekki við rök að styðjast. mbl.is/RAX

Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, segir Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu og höf­und­ nýrr­ar bók­ar um flug­fé­lagið WOW air: WOW - Ris og fall flug­fé­lags, ítrekað hafa farið með dylgjur og ósannindi um málefni WOW air.

„Ég ætlaði ekki að tjá mig um skrif Stefáns Einar enda ekki svara vert. En því miður get ég ekki lengur orða bundist,“ skrifar Skúli færslu á Facebook-síðu sinni og er tilefnið viðtal við Stefán Einar á Sprengisandi í morgun.

Í færslunni nefnir Skúli sex atriði sem hann segir Stefán hafa farið rangt með í aðdraganda falls WOW air. Skúli fullyrðir til dæmis að WOW air hafi unnið náið með Samgöngustofu og öðrum eftirlitsaðilum við að uppfylla skilyrði samningsins við Indigo um níu milljarða fjárfestingu „sem hefði tryggt framtíð WOW air um ókomna tíð.“

„Við unnum því í góðri trú um að við værum að uppfylla öll skilyrði samningsins og myndum klára endanlegan samning eins og til stóð 28. febrúar 2019. Allt fram að þeim tíma vorum við öll sannfærð um að WOW air myndi lifa áfram. Því miður varð það ekki raunin,“ skrifar Skúli.

Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu gaf út bók­ina …
Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu gaf út bók­ina WOW - Ris og fall flug­fé­lags, í lok maí, tveimur mánuðum eftir fall flugfélagsins. mbl.is/RAX

Rangt að WOW hafi hundsað aðvörunarorð í flugheiminum

Í færslunni fjallar hann einnig um að aðkomu Ben Baldanza,  fyrrverandi forstjóra lággjaldaflugfélagsins Spirit, að stjórn WOW air, og segir Skúli það alrangt að Baldanza hafi komið inn í stjórnina fyrir tilstuðlan eða þrýsting frá Airbus eða öðrum hagsmunaaðilum. Þá segir hann það alrangt að Airbus og leigusalar hafi haft miklar áhyggjur af rekstri WOW air um það leyti sem Ben kemur í stjórn félagsins í byrjun árs 2016.

Skúli segir það einnig alfarið rangt að hann og stjórn félagsins hafi viljandi hundsað aðvörunarorð annarra í flugheiminum. „Það er mjög auðvelt að vera vitur eftir á og eins og við höfum útskýrt þá liggur núna fyrir að við gerðum mikil mistök að færa okkur frá lággjaldastefnunni og að innleiða breiðþoturnar inn í leiðarkerfi okkar. Þetta reyndist dýrkeypt mistök en augljóslega töldum við þær réttar þegar þær voru teknar,“ segir í færslu Skúla.

Þá segir hann það einnig rangt að helmingurinn af sex milljarða skuldabréfa útboði WOW air hafi verið skuldaleiðrétting eða skuldbreyting. „Þetta er rangt og stenst enga skoðun enda hefur ekkert komið fram sem styður þessa fullyrðingu Stefán Einars,“ skrifar Skúli.

Lofar að saga WOW air verði sögð

Skúli lofar því að hann muni ekki skorast undan ábyrgð sinni í falli WOW air og að saga WOW air verði sögð einn daginn. Hann er sannfærður um að það hefði verið hægt að bjarga WOW air og þeim miklu verðmætum sem þar lágu.

„Það líður vart sá klukkutími að ég hugsi ekki um WOW air, þann frábæra hóp starfsfólks sem gerði WOW að veruleika, farþega okkar og allt sem við vorum búin að byggja upp í sameiningu. Sú saga verður einn daginn sögð,“ skrifar Skúli.mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK