Engar nýjar pantanir í tvo mánuði

Boeing 737-MAX-flugvélar á flugvellinum í Renton í Washington-ríki í Bandaríkjunum …
Boeing 737-MAX-flugvélar á flugvellinum í Renton í Washington-ríki í Bandaríkjunum þar sem verksmiðjur Boeing eru. Boeing hefur nú ekki fengið neinar nýjar pantanir í tvo mánuði. AFP

Boeing-flugvélaframleiðandinn hefur ekki fengið neinar nýjar pantanir í tvo mánuði. CNN greinir frá þessu og segir ástæðuna vera kyrrsetningu á Boeing 737 Max-farþegaþotunum í kjölfar mannskæðra flugslysa í Eþíópíu og Indónesíu.

Boeing er þó með fjölda pantana á bið, um 5.000 flugvélar raunar og því má segja að ekki hafi ekki allir viðskiptavinir Boeing þörf á að bæta við fleiri pöntunum nú.  

Í næstu viku hefst hins vegar árleg flugsýning í París, sem er helsta sölusýning ársins fyrir flugiðnaðinn, en á þeim vettvangi hafa keppinautarnir Boeing og Airbus gjarnan viljað tilkynna um nýjar pantanir. CNN segir maímánuð því oft hafa verið rólegri pantanamánuð hjá flugvélaframleiðendunum. Í maí í fyrra hafi Boeing engu að síður sýnt fram á pantanir á 43 nýjum þotum og hafi 21 þeirra pantana verið fyrir Max-vélar.

Frá því að Max-farþegaþoturnar voru kyrrsettar í mars í kjölfar þess að þota frá Ethiopian Airlines hrapaði hefur Boeing unnið að því að fá flugmálastofnun Bandaríkjanna (FAA) til að samþykkja hugbúnaðaruppfærslu á MCAS-stýribúnaðinum sem talinn er hafa valdið flugslysunum.

Afturkallaði 71 pöntun í maí

Boeing hefur líka haldið áfram að smíða Boeing 737 Max-farþegaþoturnar meðan á kyrrsetningunni stendur, en á mun minni hraða. Þá afturkallaði Boeing pantanir á 71 Max-farþegaþotu í maí. CNN segir það þó ekki hafa neitt með kyrrsetninguna að gera, heldur hafi vélarnar verið ætlaðar indverska Jet Airways-flugfélaginu. Það flugfélag varð hins vegar gjaldþrota í apríl.

„Vegna stöðu flugfélagsins höfum við aflýst samningnum um þær vélar,“ sagði í yfirlýsingu sem Boeing sendi frá sér í dag.

Kyrrsetning Max-vélanna hefur þó líka umtalsverð áhrif. Þannig afhenti Boeing til að mynda ekki nema 30 nýjar flugvélar í síðasta mánuði, þar af átta vélar sem eru eldri útgáfa Boeing 737-vélanna. Flugvélaframleiðandinn fær stærstan hluta söluverðs vélanna greiddan við afhendingu þannig að kyrrsetningin hefur áhrif á rekstrarniðurstöður Boeing, sem í maí fyrir ári afhenti 68 flugvélar, þar af 19 Max-vélar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK