Gera athugasemd við slaka í fjármálastefnu

Landsbankinn telur tilefni til endurskoðunar fjármálastefnu, en þó á öðrum …
Landsbankinn telur tilefni til endurskoðunar fjármálastefnu, en þó á öðrum forsendum en fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagfræðideild Landsbankans gerir athugasemdir við fyrirætlanir fjármálaráðherra um breytingu á fjármálastefnu ríkisins, sem fæli í sér meiri slaka í ríkisfjármálum. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem gefin var út í morgun.

Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar frá í maí gerir ráð fyrir 0,2% samdrætti á hagvexti í ár og að uppsafnaður hagvöxtur 2018–2023 verði 16%. Í gildandi fjármálaáætlun, sem sett var í samræmi við fjármálastefnu í fyrra, var gert ráð fyrir samfelldum hagvexti árin 2018–2023 sem uppsafnaður yrði 17%.

Vegna breyttra forsendna hefur ný og breytt fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 verið lögð fram á Alþingi og bíður hún afgreiðslu.

Í síðasta mánuði gaf ríkisstjórnin einnig út að til stæði að endurskoða fjármálastefnu ríkisins, þar sem ríkissjóði er sniðinn stakkur og leikreglur fjármálaáætlunar settar. Í gildandi fjármálastefnu er kveðið á um að stefnt skuli að því í fjármálaáætlun að afkoma ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga skuli vera jákvæð um 1% af landsframleiðslu á ári. Fjármálaráð hefur bent á að þrátt fyrir samfellt átta ára hagvaxtarskeið hafi afkoma ríkissjóðs verið rétt við þetta viðmið undanfarin ár. Tillögur um endurskoðun séu að einhverju leyti tilkomnar vegna veikleika í fjármálastjórn. Stjórnvöld hafi hunsað ábendingar fjármálaráðs um að gefnar forsendur í fjármálaáætlun væru of jákvæðar.

Umsagnir hagfræðideildar Landsbankans og fjármálaráðs eru keimlíkar.
Umsagnir hagfræðideildar Landsbankans og fjármálaráðs eru keimlíkar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að mati hagfræðideildar Landsbankans er það eitt og sér þó ekki nóg til þess að breyta fjármálastefnu nú, þótt spáð sé samdrætti í eitt ár. Vísar hagdeildin til umsagnar fjármálaráðs sem segir að veikleiki í fjármálastjórn, einn og sér sé ekki ástæða til endurskoðunar.

„Við sjáum að aðalrökin hjá fjármálaráðherra eru þau að hagvaxtarforsendan hafi breyst. Raunin er hins vegar sú að spárnar hafa ekki breyst mjög mikið,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar bankans. Verra sé að ríkissjóður hafi síðustu ár nýtt ramma fjármálastefnunnar til fulls. „Við sáum það til dæmis í fyrra að hagvöxtur reyndist töluvert umfram áætlanir, og það hjálpaði til.“ Til langs tíma, þegar harðnar í ári, sé ljóst að núverandi markmið náist ekki.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.
Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans. Ljósmynd/Landsbankinn

Er niðurstaða Hagsjárinnar því í samræmi við lokaniðurstöðu fjármálaráðs en ráðið kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að endurskoða fjármálastefnuna enda fari saman veikleikar í fjármálastjórn, skellur í efnahagsstarfsemi og sá möguleiki að hagkerfið þróist á enn neikvæðari hátt en spá Hagstofu geri ráð fyrir. Segir fjármálaráð að merki séu um að samdráttur verði lengri en nú er reiknað með og að verði fjármálastefna ekki endurskoðuð nú sé líklegt að þess þurfi í náinni framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK