Nýtt húsnæði Tölvuteki að falli

Tölvutek var með verslun í Hallarmúla í Reykjavík.
Tölvutek var með verslun í Hallarmúla í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigendur Tölvuteks munu í dag óska eftir því að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta þar sem ekki náðist að semja við viðskiptabanka félagsins um áframhaldandi lánsheimildir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá eigendum Tölvuteks.

Þá segir að þegar verslunum var lokað og rekstri hætt í gær hafi verið gerð upp laun við alla starfsmenn, en þeir voru um 40. „Mikill missir er að hverjum og einum starfsmanni, en sumir þeirra hafa starfað hjá félaginu frá upphafi,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt er bent á að Tölvutek hafi verið með 50 starfsmenn og tvær verslanir árið 2013. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að flytja í nýtt verslunarhúsnæði í Reykjavík. Flutningarnir og breytingar á rekstri reyndust mun dýrari en áætlað var og „reyndist hið nýja húsnæði mikill dragbítur á reksturinn, sem hefur fyrir vikið verið í járnum síðustu ár“.

Þá var hlutafé aukið til þess að mæta taprekstri í fyrra auk þess sem eigendur lögðu til rekstrarfé um áramót, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Fram kemur að nær öllum búnaði sem var í viðgerð hjá Tölvuteki hafi verið komið í hendur eigenda hans og reynt hafi verið að „lágmarka tjón viðskiptavina af lokun fyrirtækisins“. Hins vegar sé „ljóst að þeir sem eftir sitja verða að gera kröfu í bú þess hjá skiptastjóra“.

Eins og fjallað var um á mbl.is í gær er líklegt að þeir sem eiga inneignanótur eða gjafakort hjá Tölvuteki verða að gera almenna kröfu í bú félagsins.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK