Skýrslan staðfesti samkeppnisbrot

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst staðfesti „alvarleg samkeppnisbrot í rekstri Íslandspósts“, sem séu í því fólgin að einkaréttur á bréfum undir 50 grömmum standi undir öllum sameiginlegum og föstum kostnaði sem tengist honum en samkeppnisrekstur fyrirtækisins beri enga hlutdeild í sameiginlegum kostnaði þótt hann nýti sér sömu framleiðsluþættina.

Þetta kemur fram í umfjöllun um skýrsluna á vef Félags atvinnurekenda. Þar er það einnig haft eftir Ólafi að það valdi honum vonbrigðum að ekki skuli vera veitt afdráttarlausari svör við þeirri spurningu fjárlaganefndar Alþingis hvort lögbundinn aðskilnaður einkaréttar og samkeppnisrekstrar hafi verið með fullnægjandi hætti.

„Þeirri spurningu er í raun áfram ósvarað hvaðan fjármagnið hefur komið, sem hefur runnið til margra misráðinna fjárfestinga Íslandspósts í samkeppnisrekstri undanfarin ár og hverjir bera ábyrgð á þeim röngu ákvörðunum. Það er verulegur ljóður á annars ágætri úttekt,“ er haft eftir Ólafi á vef félagsins.

Ólafur segir jafnframt að skýrslan staðfesti að Íslandspóstur hafi ráðist í fjárfestingar sem að fyrst og fremst gagnist samkeppnisrekstrinum, án þess að reksturinn hafi staðið undir þeim. Hann segir stóran hluta starfsmanna fyrirtækisins vera „í vinnu við verkefni sem að ríkið á ekki að vera að sinna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK