Smærri vélar til Manchester í sumar

Icelandair flýgur til Dublin og Manchester með Q400 vélum í …
Icelandair flýgur til Dublin og Manchester með Q400 vélum í sumar vegna kyrrsetningar MAX-8 vélanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Icelandair mun nýta flugvélar úr innanlandsflugi Air Iceland Connect, af gerðinni Dash-8 Q400, sem geta tekið um 70 farþega, til þess að sinna áætlunarflugi tvisvar í viku til Manchester á Englandi og Dublin á Írlandi í sumar. Þetta staðfestir Lea Gestsdóttir Gayet, hjá samskiptasviði Icelandair, í samtali við mbl.is.

Verða vélarnar í notkun 15. júlí til 14. september.

Hún segir þetta vera hluta af þeim aðgerðum sem Icelandair hafi gripið til í þeim tilgangi að lágmarka áhrif kyrrsetningu flugvéla félagsins á ferðaáætlun farþega. Boeing MAX-8 flugvélar voru kyrrsettar út um allan heim í kjölfar þess að búnaður í vélinni hafi verið tengdur tveimur flugslysum.

Lea segir talsverðar breytingar hafa þegar verið gerðar á flugáætlunum Icelandair og félagið hefur leigt inn vélar til þess að mæta flugvélaskorti. „Fyrir þessa áfangastaði teljum við betra að nota þessar vélar í stað þess að aflýsa þessum flugum.“

Sýna skilning

Spurð hvort notkun flugvéla sem bjóða slakari fluggæði kalli á lækkun fargjalda farþega, svarar hún: „Nei það er ekkert svoleiðis. Við erum að rekast á þetta þegar við tökum vélar á leigu – þó þær séu stærri – þá er það aldrei sama þjónustan sem farþegar eru að fá um borð. En allir leggja sig fram við að gefa eins góða þjónustu og kostur er.“

„Við erum ekki eina flugfélagið sem er að glíma við þessa kyrrsetningu á MAX og yfirleitt mætum við góðum skilningi hjá farþegum. Við erum bara að reyna að standa við okkar áætlun og auðvitað skiljum við vel að þetta er ekki það sem farþegin kaupir,“ bætir Lea við.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK