Fara vextir undir 4%?

Már Guðmundsson lætur fljótlega af embætti seðlabankastjóra.
Már Guðmundsson lætur fljótlega af embætti seðlabankastjóra. mbl.is/Árni Sæberg

Verða vextir lækkaðir í dag er spurning sem flestir þeirra sem starfa á fjármálamarkaði velta fyrir sér þennan morguninn. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði vexti um 0,5 prósentur 22. maí og eiga margir von á frekari lækkun vaxta í dag. 

Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja spá allar 0,25 prósentustiga vaxtalækkun í dag en þær spáðu einnig vaxtalækkun í síðasta mánuði og rættist sú spá þeirra. Að vísu var misjafnt hvort þær spáðu 0,25 eða 0,50 prósentustiga lækkun en raunin varð sú að vextir lækkuðu um hálft prósent. 

Allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að lækka vexti bankans á þeim tíma og rætt var um hvort lækka ætti þá um 0,25 prósentur eða 0,5 prósentur. Helstu rök sem fram komu á vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar fyrir því að taka minna skref og lækka vexti um 0,25 prósentur voru þau að verðbólga væri enn yfir markmiði og ætti líklega eftir að aukast áfram á næstu mánuðum.

Verðbólguvæntingar væru einnig enn yfir markmiði. Þá væru horfur á töluverðri hækkun launakostnaðar á framleidda einingu á næstu árum og enn þá ætti eftir að ljúka kjarasamningum hjá hinu opinbera. Helstu rökin fyrir því að taka stærra skref og lækka vexti um 0,5 prósentur voru sá mikli viðsnúningur sem væri að verða í þjóðarbúinu í kjölfar þeirra 8 efnahagsáfalla sem hafa dunið á þjóðarbúinu undanfarið. Óvissa væri einnig töluverð um efnahagshorfur og ekki útilokað að efnahagssamdrátturinn verði meiri og langvinnari en gert væri ráð fyrir í spá Seðlabankans. Verðbólguhorfur hefðu jafnframt batnað og langtímaverðbólguvæntingar hefðu lækkað og stefndu í markmið sem veitti nefndinni svigrúm til þess að bregðast við með meiri lækkun vaxta en ella.

Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, yrðu 4,0%, innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) 3,75%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 4,75% og daglánavextir 5,75%. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra. Að mati nefndarmanna myndi peningastefnan á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

Meginvextir bankans, 4%, hafa aldrei verið lægri frá árinu 2012 og ef vextir munu lækka enn frekar eru horfur á að þeir geti farið niður í 3,25 prósent á næsta ári ef marka má spár greiningardeilda. Ef litið er á vaxtakúrfu meginvaxta Seðlabankans sést að þeir hafa lægst farið í 3,625 prósentur snemma árs 2011. Í ársbyrjun 2009 voru þeir aftur á móti 18%.

Már Guðmundsson lætur af embætti seðlabankastjóra síðar í sumar en næsti vaxtaákvörðunardagur peningastefnunefndar er 28. ágúst. Þetta er því annaðhvort í síðasta skiptið eða næstsíðasta sem Már kemur að vaxtaákvörðun bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK