Lækka vexti um 0,25 prósentur

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands hef­ur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,75%.

Þetta er önnur lækkunin í röð en pen­inga­stefnu­nefndin lækkaði vexti um 0,5 pró­sent­ur 22. maí. 

„Nýjustu upplýsingar um þróun efnahagsmála breyta ekki því mati á efnahagshorfum sem lá fyrir á síðasta fundi peningastefnunefndar. Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi var í takt við maíspá Seðlabankans og áfram er gert ráð fyrir samdrætti í þjóðarbúskapnum sem mun birtast frekar á komandi mánuðum. Kröftugri einkaneysla á fyrsta fjórðungi og leiðandi vísbendingar gætu þó bent til þess að undirliggjandi þróttur innlendrar eftirspurnar hafi verið meiri en talið var. Á móti eru horfur á að samdráttur í ferðaþjónustu verði meiri.

Verðbólga hefur enn sem komið er verið í samræmi við síðustu spá Seðlabankans en samkvæmt spánni hefur hún náð hámarki og mun hjaðna í átt að markmiði þegar líður á árið. Frekari lækkun gengis krónunnar gæti þó sett strik í þann reikning. Verðbólguvæntingar hafa lækkað frá því sem þær voru í kringum síðasta fund nefndarinnar. Taumhald peningastefnunnar hefur því aukist á ný.

Samdráttur í þjóðarbúskapnum mun reyna á heimili og fyrirtæki en viðnámsþróttur þjóðarbúsins er umtalsvert meiri nú en áður. Svigrúm peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum er einnig töluvert, sérstaklega ef fer sem horfir og verðbólga og verðbólguvæntingar haldast við verðbólgumarkmið. Þá mun boðuð slökun í aðhaldi ríkisfjármála leggjast á sömu sveif.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar. 

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri og nefndarmaður í peningastefnunefnd, gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar og þeim rökum sem að baki liggja, á kynningarfundi í Seðlabankanum klukkan 10 sem fylgjast má með hér

Már læt­ur af embætti seðlabanka­stjóra síðar í sum­ar en næsti vaxta­ákvörðun­ar­dag­ur pen­inga­stefnu­nefnd­ar er 28. ág­úst. Þetta er því annaðhvort í síðasta skiptið eða næst­síðasta sem Már kem­ur að vaxta­ákvörðun bank­ans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK