Bráðabirgða vopnahlé í tollastríði

Donald Trump Bandaríkjaforseti er kominn til Osaka í Japan þar ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti er kominn til Osaka í Japan þar sem G20-ráðstefnan fer fram um helgina. Hann mun funda með Xi Jingping forseta Kína fyrir helgi. AFP

Bandaríkin og Kína hafa ákveðið að leggja tímabundið niður vopn í tollastríði sem geisað hefur milli landanna í um það bil eitt ár. Ekki verða lagðir á frekari tollar á innflutning milli landanna í bili.

South China Morning Post greinir frá.

Forsetar ríkjanna, þeir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping forseti Kína munu funda saman í vikunni fyrir G20-ráðstefnuna sem haldin verður í Osaka í Japan um helgina. Talið er að Xi Jingping hafi sett það sem skilyrði fyrir fundinum við Trump að ekki yrðu lagðir á frekari tollar í bili. Búist er við fréttatilkynningum frá Kína og Bandaríkjunum fljótlega vegna niðurstöðunnar.

Ef heimildir fjölmiðla um fyrirhugað vopnahlé í tollastríðinu reynast réttar þá mun það koma í veg fyrir að Bandaríkin leggi á fyrirhugaða tolla á yfir 300 milljarða dollara virði af varningi frá Kína. Talsmenn Hvíta hússins og viðskiptasendinefndar Bandaríkjanna neituðu að tjá sig um málið.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir