Tjá sig ekki um svar stjórnar LV

Hús verslunarinnar.
Hús verslunarinnar. mbl.is/Eggert

Stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) sendi Fjármálaeftirlitinu (FME) í gær svar við fyrirspurn FME vegna mats stjórnarinnar á lögmæti þess að fulltrúaráð VR hefur ákveðið að afturkalla umboð fjögurra stjórnarmanna sem félagið tilnefnir í stjórn LV.

Málið í faglegri vinnslu

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, segir málið vera í faglegri vinnslu og bendir á að hagsmunir og réttindi séu í húfi. „Það þarf að vanda sig í þessu eins og öðru þegar verið er að hafa afskipti af vinnu annars fólks,“ segir hún.

Nokkrir hafa lýst því yfir að vafi sé á um að aðgerð VR um afturköllun umboðsins sé lögleg. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir hana þó fullkomlega löglega.

Unnur bætir við að það séu fagleg vinnubrögð að byggja á skriflegum sjónarmiðum. Í samtali við blaðamann vildi hún ekkert tjá sig um innihald svarsins og benti á stjórn LV.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins Ljósmynd/Fjármálaeftirlitið

Boltinn hjá FME

Ólafur Reimar Gunnarsson, formaður stjórnar LV, segir stjórnina ekki heldur ætla að tjá sig um innihald svarbréfsins. Boltinn sé núna hjá FME og enn sem komið er hafi ekkert heyrst frá stofnuninni. „FME hlýtur að senda frá sér yfirlýsingu. Ég vona að það verði í dag,“ segir hann.

„Þeir sendu okkur mikið bréf á föstudaginn þar sem þeir voru að fara yfir þessi mál. Við fengum mjög stuttan frest til að svara og fengum hann framlengdan til hádegis í gær,“ greinir Ólafur Reimar frá.

Á meðan ekkert svar hefur borist frá FME sitja Ólafur Reimar og hinir þrír fulltrúar VR í stjórn LV áfram til bráðabirgða þrátt fyrir ákvörðun VR. Það var ákveðið eftir skilaboð frá FME um að ef þeir segi af sér eigi varamenn að taka þeirra sæti, ekki þeir fulltrúar sem VR vill nú tilnefna í þeirra stað.

mbl.is/Eggert

Ekki skemmtileg staða

Aðspurður segist Ólafur vonast til að málið skýrist sem fyrst. „Þetta er ekki skemmtileg staða að sitja svona,“ segir hann og nefnir að hann hafi setið stjórnarfundinn þar sem ákveðið var að senda málið í fulltrúaráðið. Í framhaldinu hafi hann setið fund fulltrúaráðsins sem meðlimur í því. „Þetta er búið að vera frekar óskemmtilegt en boltinn er núna hjá FME og við bíðum eftir einhverjum svörum frá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK