Enn fjölgar fríverslunarsamningum ESB

Fríverslunarsamningar Evrópusambandsins við Víetnam, annars vegar, og Argentínu, Brasilíu, Paragvæ …
Fríverslunarsamningar Evrópusambandsins við Víetnam, annars vegar, og Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ, hins vegar, voru undirritaðir um helgina. Þeir taka þó ekki gildi fyrr en Evrópuþingið hefur samþykkt þá. AFP

Evrópusambandið hefur undirritað tvo nýja fríverslunarsamninga, annan við Víetnam og hinn við Mercosur-ríkin fjögur, Argentínu, Brasilíu, Úrúgvæ og Paragvæ.

Samningnum við Víetnam hefur verið lýst sem stærsta fríverslunarsamningi sem vestrænt ríki hefur gert við þróunarland. Tollar verða felldir niður á 99% innflutnings á milli ríkjanna, en auk tollaniðurfellingar eru í samningnum ákvæði um réttindi verkafólks, hugverkarétt og umhverfisstaðlar. Er þetta annar fríverslunarsamningur sambandsins við Suðaustur-Asíuríki, en Singapúr og ESB riðu á vaðið fyrir ári.

Cecilia Malmström, viðskiptastjóri Evrópusambandsins, segir samninginn tilheyra næstu kynslóð fríverslunarsamninga þar sem tekið er á fleiru en aðeins viðskiptahindrunum milli ríkjanna. Sver hann sig því í ætt við fríverslunarsamning ESB og Japans sem undirritaður var í fyrra en hann er sagður stærsti fríverslunarsamningur sem undirritaður hefur verið frá stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) enda standa aðilarnir tveir undir um þriðjungi heimsframleiðslunnar.

Fatnaður, skór, snjallsímar og smáhlutir í raftæki eru helstu útflutningsvörur Víetnama, en hagkerfi landsins byggir að miklu leyti á ódýrri framleiðslu fyrir vestrænan markað vegna þess hve lág laun eru í landinu. Landið hefur til skamms tíma hagnast verulega á tollastríði Bandaríkjanna og Kína og tekið við framleiðslu á vörum fyrir Bandaríkjamarkað sem áður komu frá Kína.

Blikur eru þó á lofti eftir að Trump Bandaríkjaforseti sagðist aðspurður, upp úr þurru, í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina vera að íhuga tollalagningu á landið. Sagði hann að Víetnam væri „næstum versti níðingur allra“. Ríkið er enda, líkt og Kína, kommúnistaríki þar sem flokkurinn og ríkið eru sem eitt, og hefur langa sögu af að fangelsa aðgerðasinna og blaðamenn.

Malmström, viðskiptastjóri ESB, sagði við fjölmiðla að hún teldi fríverslunarsamninginn ekki leysa þessi vandamál, en að hann opnaði á möguleikann á samtali við ríkið frekar en að það yrði einangrað og gerði það sem því sýndist.

Macron þrýstir á Bolsonaro

Fríverslunarsamningur ESB og Suður-Ameríkuríkjanna fjögurra var undirritaður á föstudag. Hann tekur til 780 milljóna íbúa, en ESB og ríkin fjögur eiga árlega í vöru- og þjónustuviðskiptum upp á yfir 120.000 milljarða króna.

Andað hafði köldu milli Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, og Emmanuel Macron Frakklandsforseta og hafði sá franski hótað því að ekkert yrði af fríverslunarsamningnum ef Bolsonaro léti verða af því að draga Brasilíu út úr Parísarsamkomulaginu líkt og hann hefur áður látið í veðri vaka. Fyrir undirritun hittust forsetarnir í Brasilíu og bauð Bolsonaro Frakklandsforseta í skoðunarferð um Amazon-regnskóginn. Virðist það hafa nægt til að lægja öldurnar, því samningurinn var undirritaður stuttu síðar, og munu brasilísk stjórnvöld því að öllum líkindum halda sér innan samkomulagsins.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK