Stjórn Íslandspóst svarar Ólafi Stephensen

„Stjórn ásamt nýjum forstjóra [hafa] tekið ákvarðanir um skipulagsbreytingar sem …
„Stjórn ásamt nýjum forstjóra [hafa] tekið ákvarðanir um skipulagsbreytingar sem komnar eru til framkvæmda og hagræðingu sem munu létta á rekstri Póstsins.“ segir í svari stjórnar Íslandspóst. mbl.is/Eggert

Stjórn Íslandspósts hefur brugðist við fullyrðingum Ólafs Stephensen, framkvæmdarstjóra Félags atvinnurekenda, um að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst staðfesti alvarleg samkeppnisbrot sem og ýmsa vankanta í starfsemi fyrirtækisins.

Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt í síðustu viku birtist yfirlýsing á vef Félags atvinnurekenda þar sem því var meðal annars haldið fram að skýrslan staðfesti „alvarleg samkeppnisbrot í rekstri Íslandspósts“ og „að opinbert eftirlit með Íslandspósti sé í ólestri“.

Vinna eftir þeim leikreglum sem gilda

Í skriflegri fyrirspurn mbl.is til stjórnar Íslandspósts var óskað eftir svari við þessum fullyrðingum og í svarinu segir meðal annars:

„Við treystum til þess bærum aðilum, Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun ásamt eftirlitsnefnd til að sinna hlutverki sínu hvað varðar eftirlit og leiðbeinslu til aðila í póstþjónustu. Við höfum heldur ekki ástæðu til að ætla annað en að okkar ágæta starfsfólk hjá Póstinum hafi vandað sig við að vinna eftir þeim leikreglum sem í gildi eru.“

„Það er fátt nýtt í málflutningi Ólafs Stephensen og varla tilefni til að bregðast sérstaklega við því nú.“

Breytingar þegar komnar til framkvæmda

Í svari stjórnar Íslandspóst kemur einnig fram að stjórn ásamt nýjum forstjóra hafi þegar tekið ákvarðanir um skipulagsbreytingar sem komnar eru til framkvæmda. Þá sé unnið að breytingum og nýjungum sem munu styrkja stöðu fyrirtækisins.

„Stjórn Íslandspósts fagnar vandaðri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst þar sem farið er yfir farinn veg og þakkar margar gagnlegar ábendingar og tillögur. [...] Stjórnin telur að skýrslan muni nýtast bæði fyrirtækinu og eigandanum vel í þeim verkefnum sem framundan eru,“ segir þar ennfremur.

Yfirlýsing stjórnar Íslandspósts í heild sinni:

„Við treystum til þess bærum aðilum, Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun ásamt eftirlitsnefnd til að sinna hlutverki sínu hvað varðar eftirlit og leiðbeinslu til aðila í póstþjónustu. Við höfum heldur ekki ástæðu til að ætla annað en að okkar ágæta starfsfólk hjá Póstinum hafi vandað sig við að vinna eftir þeim leikreglum sem í gildi eru. Það er fátt nýtt í málflutningi Ólafs Stephensen og varla tilefni til að bregðast sérstaklega við því nú.

Yfir stendur mikið umbreytingaferli hjá Íslandspósti sem er bæði krefjandi og spennandi verkefni. Nú þegar hefur stjórn ásamt nýjum forstjóra tekið ákvarðanir um skipulagsbreytingar sem komnar eru til framkvæmda og hagræðingu sem munu létta á rekstri Póstsins. Þá er unnið að ýmsum breytingum og nýjungum sem munu styrkja stöðu fyrirtækisins og laga betur að nýjum aðstæðum á póstmarkaði.

Stjórn Íslandspósts fagnar vandaðri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst þar sem farið er yfir farinn veg og þakkar margar gagnlegar ábendingar og tillögur. Með skýrslunni er staðfest að fyrirtækið stendur á tímamótum vegna breytinga sem orðið hafa á eðli póstþjónustu og nauðsyn þess að fyrirtækið lagi sig hratt að nýjum aðstæðum. Margt af því er nú þegar komið vel á veg, en mikil vinna er engu að síður framundan að búa fyrirtækið sem best undir framtíðina og styrkja rekstrargrundvöll þess. Stjórnin telur að skýrslan muni nýtast bæði fyrirtækinu og eigandanum vel í þeim verkefnum sem framundan eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK