Valitor vildi eyða óvissunni

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir að mikilvægt hafi verið að …
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir að mikilvægt hafi verið að eyða óvissunni sem vofði yfir vegna málaferlanna. Verið er að selja Valitor. Mynd/Valitor

Eftir hagsmunamat ákvað stjórn Valitors að ganga að samningaborðinu við Datacell og Sunshine Press Productions, útgáfufélag WikiLeaks, í stað þess að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar. Málið var svo til lykta leitt með samkomulagi, staðfestir forstjóri Valitors, Viðar Þorkelsson.

Samið var um að Valitor greiddi fyrirtækjunum 1,2 milljarða í skaðabætur og fyrir lá að Landsbankinn og Arion banki, sem voru báðir eigendur Valitors á tíma brotsins, skiptu þeirri greiðslu á milli sín. Viðar vill ekki gefa upp um hvernig það skiptist heldur vísar á bankana.

Valitor er í söluferli og þetta samkomulag var ekki síst gert í ljósi þeirrar stöðu. „Við vildum eyða óvissunni. Nú viljum við setja þetta mál fyrir aftan okkur og halda áfram,“ segir Viðar. „Söluferlið er í gangi og það gengur vel,“ segir hann. Samkvæmt Fréttablaðinu ætti því að ljúka í þessum mánuði.

Valitor er að greiða skaðabætur fyrir að hafa rofið greiðslugáttarþjónustu við Datacell og Sunshine Press Productions fyrirvaralaust árið 2011, þegar fyrirtækin voru að afla fjár fyrir WikiLeaks. Það þjónusturof var metið ólögmætt af héraðsdómi en þeirri niðurstöðu stóð til að áfrýja. 

Á tímanum þegar rofið var gert var WikiLeaks að fjalla um umdeild mál í Bandaríkjunum og Valitor, sem er með samninga við stór fyrirtæki eins og Mastercard og Visa, var beitt þrýstingi til þess að loka á þjónustuna við WikiLeaks, að sögn Viðars, þó að hann gefi ekki upp af hverjum.

Hann segir að fljótlega í kjölfar málsins á sínum tíma hafi Valitor breytt verklagi sínu með það fyrir augum að önnur eins ólögmæt stöðvun yrði ekki endurtekin. Fyrirtækið fylgi reglum sem samstarfsaðilar þeirra setja.

Fyrirtækið er nú annars í söluferli eins og segir en heldur áfram rekstri í óbreyttri mynd þrátt fyrir þetta áfall. Ljóst er að Landsbankinn mun greiða hluta skaðabótanna og samkvæmt Fréttablaðinu eru 456 milljónir króna af 1,2 milljarði. 

„Við erum á fullri ferð í okkar rekstri, það gengur vel og það eru spennandi tímar framundan,“ segir Viðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK