Króatar undirbúa evru

Króatar stefna að upptöku evru innan þriggja ára.
Króatar stefna að upptöku evru innan þriggja ára. AFP

Króatísk stjórnvöld óskuðu þess í dag að landið fengi aðild að ERM-II, gengissamstarfi Evrópusambandsins. ERM-II er lýst sem biðrými fyrir upptöku evru, en í því felst að gengi gjaldmiðils ríkisins er fest við evru en þó þannig að heimilt er að 15% flökt í hvora átt fyrir sig er heimilt.

Vonast landið til að ganga í samstarfið um mitt næsta ár, en gangi áætlanir eftir gæti ríkið tekið upp evru í stað hinnar króatísku kúnu innan þriggja ára, en tveggja ára dvöl í ERM-II er skilyrði fyrir upptöku samevrópska gjaldmiðilsins.

Í bréfi, sem ríkisstjórn Boris Vujcic forsætisráðherra sendi fjármálaráðherrum evruríkja og stofnunum Evrópusambandsins í morgun, segir að ríkisstjórnin hyggi á áform sem muni „draga úr þjóðhagslegu ójafnvægi“. Eiga þær að draga úr atvinnuleysi, erlendri skuldsetningu þjóðarbúsins og auka jafnvægi í ríkisrekstri, að því er segir í bréfinu.

Á að styrkja veikan efnahag

Króatía er nýjasta aðildarríki Evrópusambandsins en landið gekk í sambandið árið 2013 og er hagkerfi þess eitt hið veikasta innan sambandsins. Meðallaun eru um 6.400 kúnur, um 125.000 krónur, og er atvinnuleysi um 8,5%.

Stjórnvöld telja að upptaka evru verði til þess fallin að styrkja efnahag landsins og benda í því skyni á að um 80% innistæðna í króatískum bönkum séu í evrum.

Skoðanakannanir benda til að þjóðin sé klofin í afstöðu sinni til gjaldmiðlaskiptanna, og stuðningur mælst á bilinu 39% til 52% í könnunum.

Aðeins eitt ríki er í ERM-II samstarfinu í dag, Danmörk, en ríkið hefur undanþágu frá upptöku evru og heldur þess í stað gengi sínu nær föstu við evru. Þannig jafngildir ein evra 7,46 dönskum krónum og hefur skiptigengið haldist nær óhaggað um árabil.

Búlgörsk stjórnvöld hafa nýlega farið þess á leit við Evrópusambandið að ganga í samstarfið og standa vonir til að það gangi í gegn síðar á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK