Kjötiðnaðarsamruni virðist úr sögunni

Ekkert verður af því að Norðlenska og Kjarnafæði renni í …
Ekkert verður af því að Norðlenska og Kjarnafæði renni í eina sæng, en fyrirtækin tvö höfðu verið í formlegu samrunaferli frá því í ágúst í fyrra. Mynd úr safni, frá sláturhúsi Norðlenska. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Samrunaviðræður Norðlenska og Kjarnafæðis hafa verið settar á ís og ekki er útlit fyrir að þeim verði haldið áfram „nema einhver nýr vinkill komi á málið.“ Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Norðlenska.

Viðræður fyrirtækjanna hafa staðið yfir frá vormánuðum 2018 og formlegt ferli í átt að samruna hófst í ágúst í fyrra, en fregnir hafa borist af því að þær hafi gengið erfiðlega. 

Sögusagnir voru uppi um að viðræðunum hefði verið slitið þegar í apríl. Þegar mbl.is spurðist fyrir um stöðu mála þá vildu hvorki Águst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, né Gunnlaugur Eiðsson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis tjá sig um stöðu mála.

Þó barst mbl.is til eyrna frá á þeim tímapunkti að viðræðurnar hefðu reynst flóknari en búist var við og að upp hefðu komið atriði sem ekki hefði mátt sjá fyrir við upphaf þeirra, sem unnið væri að því að leysa.

„Menn hafa einfaldlega ekki náð saman“

„Á þessum tíma hefur aðilum ekki tekist að komast að endanlegu samkomulagi um fyrirkomulag samruna félaganna, menn hafa einfaldlega ekki náð saman og ber enn talsvert í milli.  Viðræðurnar eru því komnar á ís og verður ekki séð að þeim verði fram haldið nema einhver nýr vinkill komi á málið,“ segir í tilkynningu Norðlenska.

Á vef Norðlenska kemur einnig fram að fyrirtækið hafi hafið vinnu við undirbúning nýrrar starfsstöðvar á Akureyri, en sú vinna var lögð til hliðar á meðan að rætt var við Kjarnafæði um sameiningu, sem að öllu óbreyttu virðist úr sögunni.

Norðlenska varð til árið 2000 við samruna KEA og Kjötiðjunnar Húsavík og stækkaði svo árið 2001 er félagið sameinaðist þremur kjötvinnslum Goða. Félagið er í eigu Búsældar, félags kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi, en hluthafar þess eru um 500 bændur.

Kjarna­fæði var stofnað árið 1985 af bræðrun­um Eiði og Hreini Gunn­laugs­son­um og fram­leiðir úr­val kjötv­ara, einkum und­ir vörumerk­inu Kjarna­fæði. Afurðar­stöð SAH á Blönduósi er í sömu eigu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK