Leiguverð heldur áfram að hækka

Reykjanesbær er meðal þeirra sveitarfélaga sem leiguverð hefur hækkað mest.
Reykjanesbær er meðal þeirra sveitarfélaga sem leiguverð hefur hækkað mest. mbl.is

Árshækkun leiguverðs í maí 2019 mældist hæst á landsbyggðinni og í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, eða 7,9%. Í Reykjavík var árshækkun 5,8% og 4,6% í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar í maí, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn.

Nýjustu tölur um gistinætur sýna 29% fækkun í gistingu erlendra ferðamanna í gegnum vefsíður eins og Airbnb. Hins vegar er fátt sem bendir til þess að samdrátturinn skili sér í auknu framboði á húsnæðis- og leigumarkaði samkvæmt skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, Akranes, Árborg, Hveragerði og Ölfus auk sveitarfélagana á Suðurnesjum, hefur leiguverð hækkað mun meira að undanförnu en á höfuðborgarsvæðinu. Þá náði hækkunin hámarki í júní 2017 þegar leiguverð hækkaði um 25,7% samanborið við 16,4% í Reykjavík.

Hækkun langt umfram verðlagsþróun

Þá hefur heildarhækkun leiguverðs verið 80,4% frá því í janúar 2012 en á móti hefur heildarhækkunin í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins á sama tímabili verið 115%. Á landsbyggðinni hefur hækkunin verið 77,2% frá 2012.

Frá janúar 2012 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 20,9% og hefur því leiguverð hækkað langt umfram verðlag.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK