„Þetta snýst bara um peninga“

Framkvæmdastjóri Norðlenska segir að ekki sé að slitna upp úr …
Framkvæmdastjóri Norðlenska segir að ekki sé að slitna upp úr viðræðum fyrirtækisins við Kjarnafæði út af „einhverjum tittlingaskít eins og stjórnun“ eða þvíumlíku, heldur hafi menn ekki náð saman um verðmæti. Mynd úr kjötvinnslu Norðlenska á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Menn hafa bara ekki náð saman um verðmæti. Þetta snýst um það,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, um þau tíðindi að samrunaviðræður Norðlenska og Kjarnafæðis hafi verið settar á ís, eftir að hafa staðið yfir með formlegum hætti í tæpt ár.

Ágúst segir í samtali við blaðamann að ekki sé að slitna upp úr viðræðum fyrirtækjanna tveggja út af „einhverjum tittlingaskít eins og stjórnun“ eða þvíumlíku.

„Það er ekki málið. Þetta snýst bara um peninga.“

Hann leggur áherslu á að viðræðunum hafi ekki verið formlega slitið, heldur séu þær bara komnar á ís þar sem ekkert hafi þokast áfram núna í svolítinn tíma.

Málið snúist að nær öllu leyti um verðmæti, en hafi ekki strandað af áreiðanleikakönnunum eða slíku. Það sé allt klappað og klárt.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska.
Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þá segir Ágúst að það sé „góður andi á milli manna“ og það að samrunaviðræðurnar hafi verið settar á ís hafi ekkert að gera með einhverjar persónur eða leikendur innan kjötiðnaðarfyrirtækjanna tveggja.

Tilkynning um að viðræðum hefði verið hætt var sett inn á vef Norðlenska á mánudag og var hún að sögn Ágústs aðallega ætluð hluthöfum fyrirtækisins, sem eru yfir 500 bændur á Norður- og Austurlandi sem eiga Norðlenska í gegnum félagið Búsæld.

Viðræður fyrirtækjanna hafa aldrei komist á það stig að samrunasamningur hafi verið borinn undir hluthafana.

„Ég hringi kannski ekki í þá alla, þannig að þetta er mín leið að segja þeim að við séum farin að skoða aðra kosti.“

Hellings vinna unnin síðan í apríl

Strax í apríl fékk mbl.is að heyra af því að erfiðleikar væru í viðræðum fyrirtækjanna tveggja. Ágúst segir langt því frá að viðræður hafi legið niðri síðan í apríl og segir að „hellings vinna“ hafi verið unnin síðan þá.

„En það er alveg rétt að það voru ákveðnir aðilar sem að fannst strax í apríl að þetta stefndi í að verða súrt. En ég er nú þrjóskari en andskotinn og fleiri sem þarna voru í þessu voru ekki af baki dottnir strax,“ segir Ágúst.

Hann segir að nú sé staðan þó þannig að fyrirtækin séu búin með þau verkfæri sem þau eru með í kistunni og ný verkfæri þurfi að koma til sögunnar eigi að verða af samrunanum. Þetta sé þó ekki búið, „feita kellingin“ sé ekki búin að syngja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK