Sameining svar við rekstrarvanda

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, segir sameiningaráform koma til vegna erfiðari …
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, segir sameiningaráform koma til vegna erfiðari markaðsaðstæðna. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirhuguð sameining ferðaþjónustufyrirtækjanna Allrahanda og Reykjavík Sightseeing Invest kemur fyrst og fremst til vegna harðnandi samkeppni og verri rekstrarskilyrða. Þetta segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda.

Fyrirtækin tvö, sem bæði sjá um farþegaflutninga til Keflavíkur og víðar um land, óskuðu í dag eftir leyfi frá Samkeppniseftirlitinu til sameiningar og ætti úrskurður að liggja fyrir á næstu mánuðum.

Taprekstur undanfarin ár

Allrahanda rekur þjónustu undir merkjum Gray Line og Airport Express en vörumerki Reykjavík Sightseeing Invest eru Airport Direct, SmartBus og Reykja­vík Sig­ht­seeing.

Uppsafnað tap fyritækjanna árin 2016 og 2017 nemur 418 milljónum króna. Til samanburðar námu rekstartekjur ársins 2017 um 4 milljörðum hjá Allrahanda og 610 milljónum hjá Reykjavík Sightseeing Invest.

Allrahanda, undir merkjum Gray Line, og Reykjavík Sightseeing Invest, í …
Allrahanda, undir merkjum Gray Line, og Reykjavík Sightseeing Invest, í nafni Airport Direct, keppast um áætlunarferðir milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur ásamt Flybus Kynnisferða og Strætó. Ljósmynd/Grayline

Þórir segir bæði fyrirtæki hafa hagrætt töluvert í rekstri á undanförnum misserum og að það hafi skilað árangri, en ekki nægjanlegum. Fyrir liggi að samkeppni á ferðaþjónumarkaði hafi aukist mikið og rútufyrirtæki keppi við bílaleigur, en einnig aðra afþreyingarmöguleika.

Bendir hann á að hlutfall erlendra ferðamanna sem leigi bílaleigubíl í Leifsstöð við komuna til landsins hafi aukist úr 40% í 60% á nokkrum árum. Á sama tíma hafi aukin samkeppni haft í för með sér að verð á vinsælum túrum, svo sem Gullna hringnum, hafi lækkað þrátt fyrir að fullur 24% virðisaukaskattur hafi verið lagður á rútuferðir frá árinu 2016.

Viðræður hófust fyrir fall Wow 

Sameiningarviðræður hófust snemma vors, en þær fara fram í gegnum endurskoðunar-og lögfræðiskrifstofur enda er keppinautum ekki heimilt að skiptast á innherjaupplýsingum. Þær hafi því tekið dágóðan tíma. „Þú sest ekki bara niður með samkeppnisaðilanum og ákveður að nú skuli málið klárað,“ segir Þórir.

Fall Wow Air og vandræði flugfélaga með MAX-vélar Boeing hafi ekki verið til að bæta úr skák og hafi þau áföll hraðað viðræðunum.

Torfi G. Yngvason, framkvæmdastjóri Airport Direct, við einn af bílum …
Torfi G. Yngvason, framkvæmdastjóri Airport Direct, við einn af bílum fyritækisins sem keyrir mili Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Ljósmynd/Aðsend

Þórir sér fyrir sér að fleiri fyrirtæki á markaðnum eigi eftir að sameinast á næstunni og bendir á nokkur dæmi um nýlegar sameiningar. Má þar nefna fyrirtækið Arctic Adventures sem sé orðið öflugt fyrirtæki sem nái góðri stærðarhagkvæmni með kaupum á öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja bíða þess nú að Samkeppniseftirlitið gefi grænt ljós á sameiningu, mögulega með fyrirvörum, og segir Þórir því ótímabært að ræða framtíðarsýn og drauma hins sameinaða félags. Ekki liggur því fyrir undir hvaða merkjum þjónusta þess verður rekin eða hvernig eignarhaldi verður háttað, þótt Þórir segi ákveðnar hugmyndir uppi um það.

Uppfært 12. júlí 12:59:

Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar sagði að Reykjavík Sightseeing sæi um rekstur rauðu strætisvagnanna sem keyra um miðborg Reykjavíkur. Hið rétta er að Kynnisferðir reka þá undir merkjum City Sightseeing.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK