Leynd yfir nýjum eiganda

Lítið er vitað um nýjan eiganda, en heimildir Viðskiptablaðsins segja …
Lítið er vitað um nýjan eiganda, en heimildir Viðskiptablaðsins segja að það sé fyrirtækið Oasis Aviation Group, en bæði félagið og eigandi þess vekja upp fleiri spurningar en hefur verið svarað. mbl.is/Hari

Það er óhætt að segja að erfiðlega gangi að að afla upplýsinga um fyrirtækið Oasis Aviation Group sem sagt hefur verið kaupandi að öllum eignum þrotabús WOW air. Lögmaður kaupandans segist ekki geta sagt neitt um hver skjólstæðingur hans er, en fyrirtækið í Bandaríkjunum virðist vísa á hann.

Viðskiptablaðið sagði frá því í dag að heimildir blaðsins hermdu að OAG væri kaupandi allra eigna þrotabús WOW air. Er mbl.is fletti fyrirtækinu upp og fann vefsíðu þess, var gefið upp símanúmer og heimilisfang í skrifstofuhúsnæði við Dulles-flugvöll í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.

Þegar blaðamaður hringdi í umrætt símanúmer svaraði kona sem sagði: „US Aerospace Associates, hvernig get ég hjálpað?“ Kom hún af fjöllum er spurt var um fyrirtækið OAG. Tjáði hún blaðamanni að hún hefði aldrei heyrt um fyrirtækið, en sagðist reiðubúin til þess að koma fyrirspurninni til yfirmanns sem gæti kannað hvort þau hefðu nokkuð verið í viðskiptum við OAG.

Þegar var haft samband á ný og svaraði þá hin sama hjálpsama kona sem sagðist geta gefið samband á yfirmann sinn sem nú væri við síma. Þegar biðtónlist lauk svaraði sama kona á ný og sagði að yfirmaður hennar hafi sagt að best væri að hafa samband við „Paul“. Spurð hvort þessi Paul hafði eitthvert eftirnafn svaraði hún: „Hún [yfirmaðurinn] sagði að hann héti Paul og að það væri einfalt að finna hann.“

Lögmaður bandaríska fjárfestisins sem keypti allar eignir úr búi WOW air heitir Páll Ágúst Ólafsson, en hann hefur hvorki viljað játa né neita að hann vinni fyrir OAG.

Spurði þá blaðamaður konuna á ný hvort hún kannaðist við OAG. „Þessu get ég ekki svarað.“

Í samtali við mbl.is segir Páll: „Ég get ekki tjáð mig um umbjóðanda minn með einum eða neinum hætti, hvorki í þessu máli né öðru.“ Bætti hann við að „þó að einhver aðili úti í bæ eða heimi bendi á mig þá get ég ekki tjáð mig“.

Skráning óljós

Á vef OAG kemur fram að fyrirtækið er með aðsetur í skrifstofuhúsnæði að 45025 Aviation Drive við Dulles-flugvöll í Washington. Fyrirtækið er hins vegar í fyrirtækjaskrá Vestur-Virginíuríkis og var skráð þar 21. ágúst 2017.

Í gagnagrunni innanríkisráðuneytisins í Vestur-Virginíu kemur fram að aðsetur fyrirtækisins sé að 6016 Lee Highway í Warrenton í Virginíuríki. Ef marka má kortavef Google er um skóglendi að ræða, en líklega er það lóð sem tilheyrir skráðum stjórnanda, Michele Ballarin.

Þá segir í skrám að starfsstöð OAG sé við 731 Novak Drive í Martinsburg í Vestur-Virginíuríki sem er við svæðisflugvöll austurhluta Vestur-Virginíu (e. Eastern West Virgina Regional Airport).

Kvartað til Clinton

Stjórnandinn og líklegur eigandi OAG er með einstaka forsögu, en hún hefur meðal annars gefið tilefni til fjölmiðlaumfjöllunar fyrir að hafa reynt að vera lausnargjaldsmiðlari þegar sjóræningjar undan ströndum Sómalíu tóku skip og áhafnir í gíslingu.

Fram kemur í umfjöllun Washington Post um Ballarin að hún hafi rætt um að hún væri með áætlun um það hvernig væri hægt að koma á friði í landinu. Sjóræningjarnir eru sagðir hafa gefið henni nafnið Amira sem þýðir prinsessa á arabísku.

Árið 2009 þegar sjóræningjar tóku yfir úkraínska skipið Faina stökk Ballarin inn í samningaviðræður um lausnargjald. Það voru þó ekki allir sáttir við aðkomu hennar að málum og sendi utanríkisráðherra Úkraínu beiðni til þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, þar sem hann bað bandaríska kollega sinn að stöðva Ballarin.

Fram kemur í bréfi úkraínska ráðherrans, sem birt var á vef Wikileaks á sínum tíma: „Framganga erfiðra samningaviðræðna hefur orðið fyrir töfum vegna aðkomu Michele Lynn Golden-Ballarin, bandarísks ríkisborgara. […] Án nokkurs umboðs frá eiganda skipsins hefur hún hafið milligöngu í samskiptum við sjóræningjana. Hún hefur í raun hvatt sjóræningjana til rakalausrar hækkunar lausnargjaldsins sem krafist er af eiganda skipsins.“

„Ég bið þig um að finna leiðir til þess að útiloka Golden-Ballarin frá frekari þátttöku í samningaviðræðum við sjóræningjanna,“ segir úkraínski ráðherrann að lokum.

Vildi drepa fyrir CIA

Í umfjöllun tímaritsins Foreign Policy um ævintýri Ballarins segir að hún hafi ítrekað lagt út í verkefni sem hafa haft það að markmiði að gera samninga við leyniþjónustu og hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna. Réð hún nokkra fyrrverandi hermenn og starfsmenn leyniþjónustunnar sem komnir voru á eftirlaun í þeim tilgangi að þeir gætu haft milligöngu um skipulagningu funda með æðri embættismönnum þjóðaröryggismála.

Í ágúst 2017 ritaði Ballarin CIA bréf þar sem hún kynnti sig sem forstjóra öryggisfyrirtækis, Gulf Security Group, sem átti að hafa aðsetur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Var markmið fyrirtækisins sagt vera að finna og drepa al-Qaeda í Austur-Afríku (e. Horn of Africa).

Aðstoðarframkvæmdastjóri lögfræðisviðs CIA, John L. McPherson, svaraði Ballarin mjög skýrt: „CIA hefur engan áhuga á óumbeðnu tilboði þínu og gefur þér enga heimild til þess að hefja einhvers konar aðgerðir á vegum þess. Ég skila með þessu tilboði þínu.“

Fékk að njósna fyrir Pentagon

Eftir höfnun CIA leitaði Ballarin til varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og lagði til að hún gæti safnað persónuupplýsingum um fólk í Sómalíu í gegnum hjálparstarf sitt. Þá var ætlunin að úthluta mat í landinu og þegar fólk næði í mat þyrfti það að sýna skilríki. Upplýsingar um fólkið yrðu síðan sendar bandarískum yfirvöldum svo betur væri hægt að kortleggja íbúa landsins og hryðjuverkasamtökin al-Shabab.

Pentagon tók vel í hugmyndina og veitti henni 200 þúsund Bandaríkjadali. Hins vegar skilaði verkefnið litlum árangri og var því hætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK