Georg ráðinn til Íslandspósts

Georg Haraldsson nýr forstöðumaður Stafrænnar þjónustu.
Georg Haraldsson nýr forstöðumaður Stafrænnar þjónustu. Ljósmynd/Aðsend

Georg Haraldsson hefur verið ráðinn til Íslandspósts sem forstöðumaður stafrænnar þjónustu, en hann mun stýra þróun og stefnumörkun á stafrænum þjónustuleiðum fyrirtækisins. Georg tekur til starfa í lok sumars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Fram kemur að Georg hafi reynslu af alþjóðlegri sölustýringu og þróun rafrænna sölu- og markaðsdreifikerfa, en hann kemur til Póstsins frá Iceland Travel þar sem hann gegndi hlutverki forstöðumanns viðskiptastýringar. Á árunum 2014 til 2017 var Georg búsettur í Dubai, þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Marorku í Miðausturlöndum og leiddi þar uppbyggingu félagsins á fjarmörkuðum. Áður hefur Georg starfað við stafræna þróun hjá Völku, Iceland Express og Dohop.

Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Íslandspósts, að markmið fyrirtækisins sé að minnka kostnað í yfirbyggingu fyrirtækisins og bæta arðsemi í rekstri, en hins vegar þurfi einnig að bæta þjónustu. „Lykillinn að framúrskarandi þjónustu sem og aukinni hagræðingu er betri nýting á upplýsingatækni og því er ráðning Georgs og aukin áhersla á stafrænar lausnir gríðarlega mikilvægur hluti af umbreytingu fyrirtækisins.“

Þá er haft eftir Georg í tilkynningunni að Pósturinn eigi mikið inni þegar komi að stafrænum lausnum og að nýir stjórnendur séu meðvitaðir um þær séu mikilvægasta breytan í að bæta þjónustu samhliða því að finna nýjar virðisaukandi þjónustuleiðir.

Georg er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er einnig með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá HR og IE Business School. Hann er kvæntur Hjördísi Jónsdóttir verkefnastjóra hjá Tulipop og eiga þau fjögur börn. Georg er ástríðukokkur, golfari, söngvari og grjótharður KR-ingur.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK