Ólafur Ragnar í stjórn Kerecis

Ólafur Ragnar Grímsson mun taka sæti í stjórn nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis ...
Ólafur Ragnar Grímsson mun taka sæti í stjórn nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis á hluthafafundi þess 1. ágúst næstkomandi. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti lýðveldisins, hefur verið tilnefndur til þess að taka sæti í stjórn nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis og mun gera það á hluthafafundi 1. ágúst næstkomandi. Þetta staðfestir Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis í samtali við mbl.is, en Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Kerecis framleiðir afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði, sem hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum, einkum hjá fólki með sykursýki. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti undanfarin ár og lauk tveggja milljarða króna fjármögnun fyrr á árinu.

Framleiðsla fyrirtækisins fer fram á Ísafirði, heimabæ Ólafs Ragnars. Segir Guðmundur í samtali við blaðamann að það sé ein af þremur ástæðum fyrir því að Ólafur Ragnar sé að koma inn í stjórnina.

„Hann hafði mikinn áhuga á að tengjast Ísafirði og svo hefur hann líka verið í verkefnum undanfarin ár sem að tengjast sjálfbærri hagnýtingu á sjávarauðlindum, í Kyrrahafinu og víðar, einmitt í samstarfi við Emmerson Collective og Laurene Jobs,“ segir Guðmundur.

Laurene Powell Jobs er ekkja Steve Jobs stofnanda Apple, en samtök hennar, Emerson Collective, eru stór hluthafi í Kerecis. Það er því sú tenging, auk tengingar Ólafs Ragnars við Ísafjörð, sem veldur því að forsetinn fyrrverandi er að koma inn í stjórn fyrirtækisins.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir