Tekin í kennslustund af Warren Buffet

Carl Icahn gagnrýnir stjórnendur Occidental harðlega.
Carl Icahn gagnrýnir stjórnendur Occidental harðlega.

Það er óhætt að segja að ofurfjárfestirinn Carl Icahn sé ekki helsti aðdáandi forstjóra olíufyrirtækisins Occidental, Vicki Hollub. Í opnu bréfi Icahn til fjárfesta fyrirtækisins í gær  kemur fram að hann telji Vicki einfaldlega hafa verið „tekna í kennslustund“ af milljarðamæringnum og fjárfestinum, Warren Buffett. 

Carl Icahn er einn hluthafa Occidental, en nú á dögunum var greint frá því að fyrirtækið hefði gert samning þar sem það skuldbindur sig til að kaupa annað olíufyrirtæki, Anadarko. Occidental hafði þar betur í baráttunni gegn Chevron sem einnig hafði lýst yfir áhuga á að kaupa Anadarko. 

Virði samningsins er talið hlaupa á 38 milljörðum Bandaríkjadala, en meðal þess sem samningurinn felur í sér er um 10 milljarða Bandaríkjadala fjármögnun frá Berkshire Hathaway, fjárfestingafélagi Buffett. Gegn því fær Buffett 100.000 forgangshluti í Occidental auk heimildar til að kaupa 80 milljónir hluta í félaginu, en samanlögð verðmæti þeirra eru talin hlaupa á 1,2 milljörðum Bandaríkjadala. 

Að mati Icahn er samruninn þess eðlis að hann sé afar áhættusamur hluthöfum Occidental auk þess að vera óvandaður og illa undirbúinn. Þá telur hann að með þessu sé Occidental að greiða alltof hátt verð fyrir Anadarko. Verðmæti hlutabréfa Icahn í félaginu eru ríflega 1,7 milljarður Bandaríkjadala, en samtals eru það ríflega 200 milljarðar íslenskra króna. 

Í bréfinu sem Icahn sendi hluthöfum í gær tæpti hann á „takmarkaðri samrunareynslu“ Vicki Hollub, en Icahn hefur lýst því yfir að hann hyggist beita sér fyrir því að reka fjóra stjórnarmenn Occidental. „Ég tel að Hollub hafi lært að samningaviðræður við einn klókasta samningarmann Bandaríkjanna, Warren Buffett, sé ekki besta leiðin til að læra hvernig standa eigi að samruna,“ ritaði Icahn meðal annars í bréfinu. 

Gengi hlutabréfa Occidental hefur hríðfallið síðustu þrjá mánuði eða um 17%. Alls hafa bréfin lækkað um 14% það sem af er ári, en til samanburðar hækkaði S&P 500 vísitalan um 19% á sama tímabili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK